A ldrei hefur mikið farið fyrir sambandsborg Sviss, í stað höfuðborgar, og nafn hennar kemur lítið við sögu í biblíum ferðamanna öllu jöfnu. Bern,Berne á ensku, er vissulega afar lítil, fjöldi íbúa ef frá eru talin úthverfi er sami og í Reykjavik, um 150 þúsund manns. Bern situr á bökkum Aare árinnar sem hlykkjast meðfram henni allri og gefur Bern sérstakt og skemmtilegt yfirbragð. Hún var gerð að höfuðborg Sviss árið 1848.

Þótt  Bern sé ekki á vinsældarlistum flestra ferðamanna býr hún yfir miklu aðdráttarafli. Kemur þar ekki síst við sögu gamli miðbæjarkjarninn sem þykir svo vel skipulagður að hann var settur í heilu lagi á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Er þar um að ræða eina sex kílómetra súlnagöng gegnum gamla bæinn allann og er ævintýri að rölta þar í gegn hvort sem er að vetri eða sumri.

Heimamenn tala sína eigin útgáfu af þýsku og jafnvel þeir sem altalandi eru á þýska tungu eiga í erfiðleikum með að skilja mállýsku þeirra. Margir tala einnig ensku og frönsku.

Til og frá

Lítill alþjóðaflugvöllur nokkra kílómetra frá borginni tengir Bern við umheiminn. Bern Airport er svo lítill að fjöldi leigubíla þar er takmarkaður og nokkur bið getur verið eftir bíl ef margar vélar eru að lenda á sama tíma. Leigubíll í miðbæinn fækkar krónunum um tæpar 4.000. Flugvallaskutla kemur þér þó að lestarstöð borgarinnar fyrir 1.800.

Samgöngur og snatterí

Samgöngukerfið í Bern er svipað og annars staðar í landinu; fyrsta flokks. Sporvagnar og strætisvagnar koma þér hvert sem er innan borgarmarkanna og lestarkerfið tekur við ef ferðir eru lengri en það.Strangt til tekið þarf vart að nota almennings farartæki mikið því Bern er lítil og auðvelt að ganga um þau svæði sem heilla. Sé þess þörf er vænlegt að verða sér úti um leiðakort á næstu upplýsingamiðstöð þar sem engin slík kort er að finna á heimasíðu Bernmobil sem sér um almenningskerfi borgarinnar. Stakur miði kostar 450 krónur (2009) en margvíslegir slíkir eru í boði hvort sem er dagpassi eða mánaðarpassi. Því lengur þú dvelur því sparar þú meira en fyrir örfáa daga breytir slíkt litlu.
Þá er og til Berncard sem gefur ótakmarkaðar ferðir með strætó eða sporvagni auk aðgangs að nokkrum söfnum borgarinnar í 72 tíma fyrir 4500. Það kort fæst á lestarstöðinni og mörgum söfnum.

S-lestarkerfi borgarinnar kemur þér í nálæg sveitarfélög. Leiðakerfi þeirra hér.

Bíll er ekki nauðsyn í Bern sökum smæðar og eins og í öðrum miðbæjum í borgum heimsins er ekki hlaupið að því að finna stæði svo létt.

Gáfulegra er að leigja hjól eða fá slíkt lánað í Hirschengraben. Hirschengraben er í fimm mínútna fjarlægð frá lestarstöðinni og þangað gengur sporvagn. Gegn 2500 króna (2009) tryggingu færð þú hjól til afnota í fjórar stundir en eftir það kostar hver klukkustund 120 krónur.

Verslun og viðskipti

Eina alvöru verslunargata borgarinnar er í miðbænum. Marktgasse er sex kílómetra löng með gott og fjölbreytt úrval verslana. Fyrir smærri sérverslanir er ráð að labba um Rathausgasse og göturnar þar í kring.

Opnunartími verslana er sá sami alls staðar. Óheimilt er að hafa opið lengur en til 20 virka daga og lengur en til 17 á laugardögum. Allt lokar á sunnudögum.

Söfn og sjónarspil

>> Sögusafnið (Historiches Museum Bern) – Allt um sögu Bern og nágrennis og landsins í heild. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Þúsund krónur (2009) fyrir fullorðna  og 500 fyrir börn að 16 ára aldri. Heimasíðan.

>> Einsteinshaus – Heimili Albert Einstein í Bern á sínum tíma. Lítið og þröngt en kom þó ekki í veg fyrir að Albert kláraði þar Afstæðiskenningu sína. Opnunartímar misjafnir eftir árstíðum. Aðgangseyrir 750 krónur. Heimasíðan.

>> Listasafn Bern (Bern Kunstmuseum) – Elsta listasafn landsins og hýsir mörg glæsileg verk eftir fræga málara. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Opið til 21 á fimmtudögum. Aðgangur 800 krónur og uppúr ef um sérstakar sýningar er að ræða. Heimasíðan.

>> Svissneska Alpasafnið (Schweizerisches Alpines Museum) – Allt sem þú þarft að vita um Alpafjöllin færðu að vita hér. Opið alla daga nema mánudaga frá 10 – 17:30. Aðgangur 1500 krónur (2009). Heimasíðan.

>> Zentrum Paul Klee – Mikilvægasta safn verka Paul Klee í veröldinni og tæplega helmingur allra verka hans hér innandyra. Byggingin sjálf skemmtileg. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 2200 (2009). Heimasíðan.

>> Þinghúsið (Bundeshaus) – Leiðsögn um þinghús Svisslendinga er alltaf þegar þing er ekki í gangi og er það gjaldfrjálst. Vænlegast þó að panta slíkt með fyrirvara á heimasíðu þingsins hér enda áhuginn mikill.

>> Dýragarðurinn (Tierpark Dählhözli) – Dýragarður Bern er ekki í heimsklassa en staðsetningin flott við bakka Aare árinnar. Opið alla daga ársins  frá 9 – 17 á veturna og 8 – 18:30 á sumrin. Tólf hundruð krónur fyrir fullorðna en átta hundruð fyrir börn. Ókeypis fyrir sex ára og yngri. Heimasíðan.

>> Gurten – Borgargarðurinn Gurten er ekki aðeins skemmtilegur heldur með stórfenglegt útsýni yfir borgina fyrir neðan og Alpafjöllin í fjarska. Viðburðir eru algengir þarna um helgar og margt að sjá og skoða. Göngustígar í allar áttir og veitingaþjónusta á staðnum ef svengd sækir að. Sporvagn númer 9 í átt að Webern og farið úr við Gurtenbahn. Þar er túristalest sem fer með þig á toppinn fyrir þúsund krónur ef fólk er ekki í skapi til að labba.

>> Zytglogge – Sennilega frægasta aðdráttarafl Bern er 700 ára gamall klukkuturn í miðbænum. Sá er þó ekki aðeins gamall heldur einstaklega merkilegur enda í raun risavaxin gauksklukka. Á heila tímanum hefst heil listasýning í klukkunni og er áhrifamikið að fylgjast með. Börnin munu elska þetta. Þá er og hægt að fá ókeypis leiðsögn um turninn og skoða klukkuverkið innanfrá.

>> Bjarnapyttur – Birnir eru nátengdir sögu Bern og nokkrir þeirra dvelja í litlum pitti ekki langt frá miðbænum. Aðbúnaðurinn ekki til fyrirmyndar kannski en börnin hafa gaman af. Strætisvagn númer 12 frá lestarstöðinni í átt að Paul Klee safninu.

>> Sundsprettur í Aare – Heitustu dagarnir í Bern slefa í 35 gráðurnar og þá er yndislegt að henda sér til sunds í ánni. Góður staður til þess er milli Kornhaus brúarinnar og almennings sundlaugarinnar Lorraine. Er frír aðgangur að sundlauginni og því hægt að sturta sig eftir á.

Hátíðir og húllumhæ

    • Gurtenfestival – Ein stærsta tónleikahátíð ár hvert í Sviss fer fram í júlí ár hvert í Gurten garðinum. Stór innlend og erlend nöfn troða þar fram og hafa 20 – 25 þúsund manns sótt hana að meðaltali síðustu árin. Dagspassi á 9000 (2009) og passi fyrir alla fjóra dagana á 24.000. Sjá dagskránna hér.
    • Jazzfestivalbern – Árleg velþekkt djasshátíð. Allt um hana hér.
    • Buskers Bern – Frábær árlega hátíð götutónlistarmanna sem koma hingað hvaðanæva úr heiminum. Ómar tónlist í öllum götum gamla bæjarins meðan á henni stendur og hefur vakið mikla lukku. Nánar.