V elflestir vita hvað um er rætt þegar rætt er um ítölsku endurreisnina. Það þarf staurblindan og þrjóskan mann á borð við herra Burns úr Simpson þáttunum til að upplifa ekki þýsku endurreisnina eftir nokkra daga í Berlín höfuðborg Þýskalands.

Borg þessi hefur undanfarin tíu ár verið og er enn í fararbroddi nýrra strauma og stefna á öllum mögulegum sviðum borgarlífs og grósku og á þessu sama tímabili hefur fólksfækkun sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi snúist við að fólk sækir nú mjög til Berlínar á ný.

Það er erfitt að koma orðum að því sem átt hefur sér stað í Berlín á síðustu tíu árum eða svo. Sá andi sem þar svífur yfir þökum einkennist af djörfung og þrá íbúa eftir mikilfengleika og grósku. Eðlilega kannski enda ekki lítið sem gengið hefur yfir þessa borg og ekki var ýkja margt merkilegt uppistandandi í henni við lok Seinni heimstyrjaldarinnar.

Þennan lífskraft verður að upplifa á eigin skinni og það gerir hver sem eyðir stundarkorni í borginni. Þar er þróttur og gróska og fjölþjóðlegt samfélagið glímir út á við ekki við nein alvarleg vandamál.

Berlín er höfuðborg Þýskalands og eitt af 16 ríkjum innan ríkjasambands þýska lýðveldisins. Hún er ennfremur stærsta borg Þýskalands þó að sú staðreynd fari framhjá mörgum sem í henni dvelja. Það er sárasjaldan sem ferðamenn upplifa hana sem kæfandi stórborg sem er vægast sagt afar sérstakt. Borgarbúar eru rúmar fjórar milljónir alls og hefur fjölgað hratt á allra síðustu árum. Um aldamótin töldust íbúar aðeins vera rúmar þrjár milljónir.

Sá sem kemur til Berlínar og vonast eftir að sjá menjar um styrjöldina og eyðileggingu þá er lagði borgina í rúst fyrir 70 árum verður fyrir miklum vonbrigðum. Fátt minnir á þann tíma og heimamenn enn viðkvæmir fyrir öllu tali um þann tíma.

Þvert á móti er hér spennandi mannlíf. Borgarbúar almennt kurteisir og þjónustulund rík. Hér er æðislegt að skemmta sér og gríðarlegt úrval næturklúbba og forvitnilegra bara. Listir og menning er í hávegum höfð og söfn hér góð. Þá er arkitektúr borgarinnar einstakur og einstaklega fjölbreyttur. Ætti að gefa Berlín einkunn frá 1 til 10 kæmi ekkert annað til greina en tíu.

Hverfin

Berlín er ólík öðrum borgum að því leyti að hér er enginn einn miðbær. Borginni er skipt í mörg hverfi og innan hvers og eins þeirra er í raun miðborg með tilheyrandi torgum og lífi. Það sem meira er; öll hverfin eiga sinn eigin stíl og því má valsa lengi hér um og aldrei upplifa sama andrúmsloft.

Hin opinbera miðborg Berlínar samanstendur af fimm borgarhverfum. Mitte, Kreuzberg, Wilmersdorf, Charlottenburg og Tiergarten. Þessar borgarhlutar eru þeir sem 90 prósent allra ferðamanna þvælast um og skoða og þarna eru flestir áhugaverðir staðir sem hinn almenni ferðamaður kannast við eða vill kannast við.

Snöggsoðin sagan

Í upphafi komu fjögur þjóðarbrot að stofnun borgarinnar sem mögulega útskýrir hversu fjölþjóðleg hún er og á auðvelt með það.

Í fyrstu var um tvo litla bæi að ræða sitt hvoru megin við ánna Spree sem svo sameinuðust í einn á þrettándu öld og Berlín varð til. Borgin varð fljótt miðstöð viðskipta og ekki síst landbúnaðar.

1701 varð Berlín höfuðborg Prússíu og 1871 höfuðborg hins sameinaða Þýska ríkis. Skömmu síðar náði íbúafjöldinn einni milljón enda var iðnaður hér mikill strax í upphafi iðnbyltingarinnar. Hún varð svo höfuðborg Þriðja ríkis Adolfs Hitlers og bækistöðvar þess leiðtoga meðan hann réði ríkjum.

Í lok Seinni heimstyrjaldarinnar var stór hluti Berlínar lagður í rúst. Margir undrast að enn séu uppistandandi margar byggingar sem virðast komnar til ára sinna en reyndin er sú í mörgum tilfellum að þær hafa verið endurbyggðar frá grunni.

Í stríðslok var borginni skipt í fjóra hluta og síða í tvennt; Austur-Berlín og Vestur-Berlín. Múr einn mikill var reistur af Rússum kringum Vestur-Berlín og þurfti um tíma að selflytja allar vörur þangað með flugi til að halda lífi í íbúunum eins og frægt er orðið.

Sá múr féll árið 1989 eftirminnilega og ári síðar voru borgarhlutarnir og sundrað Þýskaland sameinað í eitt. Að hluta til má rekja mikinn fjölda innflytjenda til þessa tíma enda komu hundruð þúsunda Tyrkja, Víetnama auk annarra þegna að mikilli uppbyggingu í Berlín eftir að múrinn féll. Stór hluti þess fólks fór ekki aftur.

Í dag er enn nokkur munur á tekjum og kostnaði milli fyrrum borgarhlutanna. Meiri peningar eru milli handa fólks í því sem var vestur-Berlín en hinir eru hratt að ná sama staðli og borgarhlutar austanmegin hafa tekið miklum og góðum breytingum.

Til og frá Berlín

Tveir flugvellir þjónusta Berlín og nágrenni eins og sakir standa en framkvæmdir standa yfir við að nútímavæða og stækka annan þeirra til að taka að mestu við öllu millilandaflugi.

Tegel flugvöllur er annasamari af þeim tveimur sem hér er að finna. Hingað fljúga stóru flugfélögin á borð við Lufthansa, British Airways, Air France og fleiri slík. Hann er staðsettur norðvestur af borginni og um 20 mínútur tekur alla jafna að komast inn í borgina.

Til umhugsunar: Á leið út á völl er ein lest sem gengur til Tegel en hana skal ekki undir neinum kringumstæðum taka því hún gengur til smábæjarins Tegel sem er í töluverðri fjarlægð frá flugstöðinni. Þaðan getur verið vandamál að komast og engar rútur eða leigubílar fara reglulega á milli.

Leigubílar eru fljótlegasti ferðamátinn inn í borgina. Nóg er af þeim fyrir utan flugstöðina. Leigari inn í miðborgina þar sem flest hótelin eru staðsett kostar um 2600 krónur.

Frá Tegel fara Jet Express rútur beint að aðallestarstöð borgarinnar fyrir 400 krónur á mann.

Strætisvagnar fara sömu leið frá Tegel en eru 15 mínútum lengur á leiðinni en rúturnar. Miðaverð hið sama.

Schönefeld flugvöllurinn er töluvert lengra frá Berlín en Tegel og má gera ráð fyrir 40 mínútum hið minnsta inn í borgina þaðan. Sá völlur er fyrst og fremst notaður af lágfargjaldaflugfélögum og er bæði lítill og þröngur.

Til umhugsunar: Þýsk yfirvöld hafa hafið byggingu glænýrrar flugvallarbyggingar við Schönefeld og mun sá völlur fullbúinn verða aðalflugvöllur borgarinnar. Ráðgert er að hann opni um mitt ár 2011. Mun þá Tegel flugvöllur loka í kjölfarið.

Ólíkt Tegel ganga lestir héðan inn í borgina ásamt rútum og strætisvögnum. Strætisvagnar númer 162, 163, 171 og 736 eru 45 mínútur inn í borgina og stoppa víða. Verðin hins vegar aðeins 400 krónur hver miði.

Hvað lestir varðar fara leiðir S9 og S49 á S-Bahn beinustu leið á Aðalbrautarstöð borgarinnar, Hauptbahnhof, skammt frá Mitte. Ennfremur ganga Express lestir þangað en þær stoppa sjaldnar og eru aðeins fljótari í förum. Ganga þær á hálftíma fresti.

Leigubílar eru einfaldasti ferðamátinn sem fyrr en nokkuð dýr. Meðalverð á dagstaxta inn í borgina er varla undir 4000 krónum.

Ratvísi

Berlín er heillandi borg á hvaða árstíma sem er en að öðrum árstíðum ólöstuðum eru vorin hér ekkert minna en stórkostleg. Borgin er stór og þvælist fólk út fyrir allra helstu miðborgarsvæðin eru auðvelt að villast. Mælt er með góðu korti sé ætlunin að rölta þangað sem fæturnir taka mann en tveir til þrír dagar duga vel til að rata mætavel um miðborgarsvæðið eitt og sér. Margir kvarta þó yfir ruglingslegu samgöngukerfi og vænlegt að hafa með sér gott leiðakort.

Til umhugsunar: Götunúmer í stórum götum borgarinnar eru gjarnan öðruvísi merkt en í smærri götum og ber að hafa það í huga sé verið að leita að ákveðnum stað. Þannig er oft talið niður öðru megin götunnar en upp á við hinu megin.

Samgöngur og snatterí

Afskaplega auðvelt og fljótlega er að komast milli staða í Berlín. Strætis- og sporvagnar, jarðlestir og hefðbundnar lestir ganga reglulega milli og eðlilega hundrað prósent stundvísar eins og Þjóðverjum einum er lagið. Leigubílar eru allir merktir og meirihluti bílstjóra kann nóg í ensku til að komast hjá misskilningi. Allnokkrir strætisvagnar og jarðlestir ganga allan sólarhringinn.

Almenningssamgöngur í borginni eru á höndum BVG og á vef þeirra má finna góð kort af öllum mögulegum leiðum innan borgarmarkanna. Allir miðar í samgöngutæki borgarinnar eru svæðisskiptir og fer kostnaður eftir lengd ferðar. Fyrir yfirgnæfandi meirihluta ferðamanna er hefðbundinn miði, AB, nóg til að komast allar leiðir innan miðborgarinnar.

Til umhugsunar: Fyrir þá sem stoppa aðeins stutt í borginni en vilja sjá sem mest er ódýrast að kaupa dagskort, Tageskarte, sem gildir í öll samgöngutæki í heilan sólarhring. Margvísleg önnur kort einnig í boði en nýtast ferðamönnum almennt minna.

Leigubíla má bæði stoppa hvar sem til þeirra sést ellegar fara í sérstakar leigubílastanda sem eru víða um borgina. Gult ljós lýsir séu bílarnir lausir og þeir eru nokkuð ódýrari en gengur og gerist í öðrum evrópskum borgum. Flestir bjóða sérstakt fast verð sé um mjög stuttar vegalengdir að fara, 650 krónur, og kveikja þá ekki á mælum sínum. Annars má komast þvert yfir borgina fyrir rúmar 2600 krónur sé allt með eðlilegum hætti.

S-Bahn eru hefðbundnar farþegalestir og eru ekki slæmur kostur í borginni. Fljótar í ferðum og margt að sjá á leiðinni. Þær fara um á tíu mínútna fresti á daginn og fimm mínútna fresti á álagstímum morgna og seinnipartinn. Um níu mismunandi leiðir er að velja en flestar fara úr vesturbæ Berlínar í austurbæinn. Lest S8, S41 og S42 fara hring um borgina. Hefðbundinn AB miði gildir í tvo tíma en aðeins í eina átt en gilda þarf alla miða fyrir brottför í þartilgerðum vélum á stöðvunum. lestar keyra allan sólarhringinn um helgar. AllarMiðaverð 380 krónur. Leiðakerfi hér.

U-Bahn eru eins og nafnið gefur til kynna jarðlestir borgarinnar. Miðaverð sama og í S-Bahn. Miðasala á öllum stöðvum og stimpla þarf miða fyrir brottför. Engin hlið er á stöðvunum og því fræðilega séð hægt að ferðast um án þess að borga. Sektir ef varðmenn verða þess varir er 7000 krónur. Allar jarðlestir aka sólarhringinn um helgar. Leiðakerfið hér.

Sporvagnar fara um Berlín og er um tvær tegundir að velja. Svokallaðir metrotrams eru algengari og fara einnig um á næturnar. Aðrir sporvagnar stoppa mun oftar og ferðast ekki fram á nótt.

Tvær tegundir strætisvagna er að finna í Berlín. Hinir hefðbundnu gulu, sem oft eru tveggja hæða, og svokallaða hraðvagna, express, sem merktir eru með X á undan númeri sínu. Þeir vagnar fara sömu leiðir og hinir en stoppa aðeins á allra stærstu stöðvum og eru að því leytinu eðalfínir fyrir ferðamanninn. Þannig er lítil hætta að fara út á röngum stað.

Til umhugsunar: Leið strætisvagns númer 100 er sem sérstaklega hönnuð fyrir ferðamanninn en sá fer milli Zoo stöðvar, Zoologischer Garten, og Alexanderplatz. Á þeirri leið má sjá margar af helstu byggingum Berlínar á einu bretti og það án þess að borga sérstaklega fyrir. Margar túristarútur fara meira eða minna sömu leiðina. Leið 200 er líka spennandi fyrir aðkomufólk en þar er ennfremur farið framhjá Potzdamer Platz.

Afar kjörin leið til að skoða borgina er á reiðhjóli enda borgin flöt að mestu og vel er gert við hjólreiðafólk. Margir staðir leigja út hjól til skemmri eða lengri tíma og borgin sjálf býður upp á slíka þjónustu í miðborginni. Verð eru misjöfn en 1300 til 1400 krónur fyrir daginn er algengt.

Söfn og sjónarspil

Eins og hæfir slíkum menningarpottrétti sem Berlín er er hér mikið af söfnum, opinberum sem öðrum, og erfitt öllum nema þeim er dvelja í borginni mánuðum saman að komast með góðu yfir þau öll. Velflest söfn eru lokuð á mánudögum og aðgangseyrir rokkar á milli 1100 til 1500 króna.

>> Þýska sögusafnið (Deutsches Historiches Museum) – Stórt og mikið safn um sögu lands og þjóðar frá forsögulegum tíma til dagsins í dag. Þetta safn gæti vart verið meira miðsvæðis enda staðsett við Unter den Linden 2. Jarðlest að Französiche Strasse. Opið daglega 10 – 18. Aðgangur 880 krónur en frítt yngri en 18 ára. Heimasíðan.

>> Gyðingasafnið (Jüdisches Museum) – Gyðingar hafa búið í Berlín frá því borgin byggðist eða svo til og þeirra saga er hér sögð í máli og myndum. Safnið rekur einnig örlög þeirra sem hér bjuggu þegar Adolf Hitler komst til valda. Merkilegt og nýtískulegt safn við Lindenstrasse. Byggingin sjálf er merkilegur strúktúr og skoðunar virði út af fyrir sig. Opið daglega 10 – 20 og 22 á mánudagkvöldum. Jarðlest að Hallesches Tor. Punga þarf út 900 krónum inn á safnið. Heimasíðan.

>> Gemäldgalleríið (Die Gemäldgalerie) – Hér er eitt allra besta listaverkasafn Berlínar og þótt víðar væri leitað. Þúsundir verka eftir marga af fremstu málurum fortíðarinnar má finna hér en velflest eru verkin frá 13. til 18. öld. Rembrant og Titian þar á meðal. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 1100 krónur. Heimasíðan.

>> Safnaeyjan (Museumsinsel) – Fimm söfn eru hér á einum og sama blettinum á lítilli eyju í miðborginni sem útskýrir nafnið. Þeirra langvinsælast og stærst er Pargamon safnið sem hýsir mikið og gott safn muna frá tímum forn-Grikkja og ekki síður íslamskra verka frá Mið-Austurlöndum. Altes Museum en annað þar sem áherslan er á muni frá Egyptalandi. Alte Nationalgalerie sérhæfir sig í verkum þýskra listmálara frá 19. öld. Bode Museum er stórkostlegt safn skúlptúra og muna frá Býsantín tímabilinu og að lokum er Neues Museum sem einnig hýsir egyptska muni. Ómissandi stopp í Berlín og taka skal frá góðan tíma. Jarðlest til Friedrichstrasse. Opið 10 – 20 daglega nema mánudaga. Aðgangseyrir er misjafn inn á söfnin. Heimasíðan.

>> Nýja þjóðargalleríið (Neue Nationalgalerie) – Aðalstaður Berlínar fyrir merkilegar farandsýningar en þess á milli er höfuðáhersla á 20. aldar listaverk. Glæsileg bygging og umhverfi skammt frá Potsdamer Platz. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Opið til 20 á fimmtudagskvöldum. Aðgangur misjafn eftir sýningum. Heimasíðan.

>> Náttúruvísindasafnið (Museum für Naturkunde) – Hefðbundið náttúruvísindasafn með tilheyrandi risaeðluþema sem svo algengt er á slíkum söfnum. Bein og brotnir munir en ekkert til að hrópa húrra fyrir. Jarðlest stoppar hjá safninu. Opið 9:30 til 18 alla daga nema mánudaga. Prísinn 900 krónur. Heimasíðan.

>> Mauersafnið (Mauermuseum) – Þetta vinsæla safn er staðsett við hlið þess sem áður var Checkpoint Charlie og var eini staðurinn þar sem farið var á milli borgarhluta þegar Berlín var skipt í austur og vestur. Staðurinn á sér mikla sögu, oft sorglega af fólki sem reyndi að komast yfir án árangurs, og henni er lýst hér á safninu í máli og myndum. Forvitnilegt safn. Jarðlest að Kochstrasse. Opið 9 – 22 alla daga. Aðgangur 2200 krónur. Heimasíðan.

>> Safn evrópskrar menningar (Museum Europäischer Kulturen) – Þetta safn kemur á óvart enda margt forvitnilegra hluta hér sem alla jafna finnast ekki á söfnum. Safninu er ætlað að varpa ljósi á menningu og líf Evrópubúa í heild sinni frá 18. öld og fram til okkar tíma. Safnið er hluti af stærra safni, Museum Dahlem, sem einnig hýsir sams konar söfn fyrir Austur Asíu og Indland. Opið daglega 10 – 18 en lokað mánudaga. Jarðlest að Dahlem-Dorf og fimm mínútna gangur þaðan að Arnimallee götu. Aðgangur 2200 krónur. Heimasíðan.

>> Þjóðminjasafnið (Museum für Völkerkunde) – Eitt stærsta og yfirgripsmesta þjóðminjasafn veraldar með yfir 500 þúsund gripi til sýnis. Það er staðsett á Dahlem safnasvæðinu og undir því eru allnokkur smærri söfn og þar á meðal sérstök sýning fyrir smáfólkið. Mikil upplifun að skoða hér og er mælt með að hér gefi fólk sér heilan dag í rólegheitum enda ýmislegt hér fyrir allra augu og ekki aðeins sögugárunga.Opið alla daga nema mánudaga milli 10 og 18. Jarðlest að Dahlem-Dorf og fimm mínútna gangur þaðan að Arnimallee götu. Aðgangur 1100 krónur. Heimasíðan.

>> Skelfing (Topographie des Terrors) – Eitt vinsælasta safn Berlínar er undir beru lofti þar sem áður fyrr stóðu höfuðstöðvar nasista í Seinni heimsstyrjöldinni. Þar má fá örlitla hugmynd um grimmd og heift Þjóðverja á þessum tíma meðal annars á veggmyndum en ekki síður eru á svæðinu fangaklefar sem grafnir hafa verið upp og liggja undir heillegum Berlínarvegg sem enn stendur. Heimasíðan.

>> Austurþýska safnið (DDR Museum) – Það er sjaldan sem söfn fara í bækur fyrir að vera fyndin en þetta safn nær í það minnsta brosi fram hjá varalausum manni. Safnið er tileinkað öllum hlutum austurþýskum og varpar skýru ljósi á hversu mjög munaði á hefðbundnum munum á heimilum austanmegin og vestanmegin í Þýskalandi. Sterklega mælt með þessu safni við bakka Spree árinnar. Opið 10 – 20 alla daga ársins. Aðgangur 900 krónur. Heimasíðan.

>> Hljóðfærahúsið (Musikunstrumenten Museum) – Sannarlega eru Hljóðfærahús víðar en á Íslandi. Þetta ágæta safn hýsir margvísleg merkileg og ómerkileg hljóðfæra hvaðanæva að og mörg hver koma fölbleikum Frónbúum ábyggilega afar spánskt fyrir sjónir. Safnið stendur við Ben Gurion strætið. Opið virka daga nema mánudaga milli 9 og 17. Milli 10 og 17 um helgar. Prísinn 700 krónur. Heimasíðan.

>> Ramones safnið (Ramones Museum) – Gamlir pönkaðdáendur vita upp á hár hvaða band Ramones var á sínum tíma og þetta safn er tileinkað því bandi í einu og öllu. Safnið doblar líka sem hálfgerður bar og tónleikastaður á stundum. Lest að Orianenburger Strasse og labb að Knausnickstrasse. Opnunartími misjafn. Aðgangur 600 krónur. Heimasíðan.

>> Dómkirkja Berlínar (Berliner Dom) – Stærsta og áhrifamesta kirkjan í borginni er dómkirkjan sem stendur við Safnaeyjuna. Hún er reyndar ekki ýkja gömul en falleg er hún og hægt er að fara upp í turn hennar en þaðan er fínt útsýni yfir miðborgarhluta Berlínar. Jarðlest að Alexanderplatz. Opið 9 – 20 virka daga og 12 – 20 um helgar. Aðgangur að turninum kostar 900 krónur. Heimasíðan.

>> Kirkja Vilhelms keisara (Kaiser Wilhelm Gadächtniskirche) – Ferðamenn komast var hjá því að sjá þessa sem stendur á aðalverslunargötunni Kurfürstendamm, eða Ku´Damm eins og heimamenn kalla hana, en hún er sérstök að þvi leytinu að hún er rústir einar. Varð þessi fallega kirkja fyrir miklum skemmdum í stríðinu og við hana hefur aldrei verið gert enda fyrst og fremst ætluð sem minningarstaður. Byggð var önnur kirkja við hlið hennar sem ber sama nafn og er öllu nútímalegri. Gamla kirkjan stendur opin ferðamönnum til skoðunar. Heimasíðan.

>> Maríukirkjan (Marienkirche) – Hæsta kirkja Berlínar er þessi sem stendur við Alexanderplatz en turn hennar er 90 metrar á hæðina. Hana er hægt að skoða. Heimasíðan.

>> Þinghúsið (Reichstag) – Þýska þinghúsið er mögnuð bygging og er eftir miklar endurbætur eitt af vinsælustu ferðamannastöðum borgarinnar. Þá var líka bætt við útsýnisglerhúsi á toppnum. Útsýn af toppnum er mikið og gott í allar áttir en búast má við löngum röðum fólks á góðum dögum. Getur biðtími þá orðið klukkustund eða meira. Með fyrirhyggju geta stærri hópar ennfremur fengið útsýnistúr um þinghúsið sjálft en það er ekki opið ferðamönnum alla jafna. Er það gert gegnum heimasíðuna. Þingsalurinn er stór og glæsilegur en allra merkilegast er að skoða innveggi hússins sem eru eitt af fáu sem er upprunalegt við húsið. Þar má víða sjá krot eftir rússneska hermenn sem hertóku bygginguna í lok Seinni heimsstyrjaldar og er margt af því miður kurteist. Útsýnisturninn er opinn frá 8 til 24 alla daga og aðgangur er frír. Heimasíðan.

>> Útvarpsturninn (Berliner Funkturm) – Gamalt útvarpsmastur í Charlottenburg hverfinu en þar er útsýnispallur í 124 metra hæð sem gefur ægifínt útsýni yfir lágbyggða borgina. Strætisvagnar 104 eða 218.

>> Sjónvarpsturninn (Berliner Fernseheturm) – Hæsta bygging í Þýskalandi og þar með í Berlín er hinn þekkti sjónvarpsturn sem austurþýsk yfirvöld byggðu þegar kalda stríði stóð sem hæst. Var ætlunin að sýna umheiminum en ekki síður íbúum vestanmegin í borginni að kommúnistarnir austan megin gætu alveg smíðað stórvirki. Turninn er 368 metra hár en útsýnispallurinn, sem jafnframt er kaffi- og veitingastaður, er 204 metrum yfir jörðu. Hafa skal í huga að sé lágskýjað er afskaplega lítið að sjá út turninum en sé veður fínt má gera ráð fyrir löngum röðum. Jarðlest að Alexanderplatz. Opið 9 – 24 alla daga. Aðgangseyrir 1900 krónur. Heimasíðan.

>> Sigursúlan (Siegessäule) – Mitt í Tiergarten stendur þessi 60 metra háa súla og gullskreytt stytta af Viktoríu stendur þar vígaleg efst uppi. Þar rétt fyrir neðan er lítill útsýnispallur en áhugasamir verða þó að klifra þrepin 285 þangað upp. Frír aðgangur.

>> Berlínarmúrinn (Berliner Mauer) – Þó múr sá er aðskildi austur og vesturhluta borgarinnar um áratugi hafi að mestu fallið niður 1989 standa enn stöku leifar hans í borginni. Eini hluti hans af einhverri lengd sem enn stendur, þó mjög sjái á veggnum, finnst í grennd við Östbahnhof í Friedrichschain hverfinu. Er það vel þess virði að kíkja. Þá má víða sjá á götum og gangstéttum skrautsteina sem sýna hvar veggurinn var á sínum tíma. Slíka línu má til að mynda sjá við Checkpoint Charlie.

>> Charlie hliðið (Checkpoint Charlie) – Einn allra frægasti staður í Berlín og það ekki til af góðu enda var það einna helst hér sem áhrif kalda stríðsins milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sáust í sinni ömurlegustu mynd. Þá lokuðust þessi einu landamæri þar sem útlendingum var leyft að fara milli borgarhluta og stórir skriðdrekar tóku sér stöðu beggja vegna landamæranna. Var þá heilu og hálfu borgarhlutunum beggja vegna lokað til skapraunar fyrir íbúa. Skiltið fræga, you are now leaving the american sector, auk eftirlíkingar af varðskýlinu sem hér stóð lengi vel er það eina sem eftir er nú til dags til minningar.

>> Potsdamer þyrpingin (Potsdamer Platz) – Eitt er það hverfi er öðrum fremur er táknrænt fyrir mikla uppsveiflu og nútímavæðingu Berlínar en það er þyrping sú af spánnýjum glæsiturnum sem gengur undir nafninu Potsdamer Platz. Þar má finna alla þá afþreyingu sem völ er á í heiminum, allt frá fínustu veitingastöðum að manngerðu skíðasvæði um tíma á veturna. Hér eru höfuðstöðvar stórfyrirtækjanna Mercedes Benz og Sony í Evrópu og pakkað af verslunum, börum, kvikmyndahúsum og dansklúbbum. Vert að skoða en hafa skal í huga að þetta er einnig meðal dýrari svæðanna í Berlín allri. Útsýnisturn er hér líka efst í Kollhof turninum og til að komast þangað fara menn með hröðustu lyftu sem til er í Evrópu. Heimasíðan.

>> Minningarreitur um gyðingana (Denkmal für die ermordeten Juden Europeas) – Örskammt frá Brandenburg hliðinu í Friedrichstadt hverfinu er þessi umdeildi reitur til minningar um þær milljónir gyðinga sem létust af völdum Þjóðverja í Seinni heimsstyrjöldinni. Um er að ræða abstrakt verk sem samanstendur af misstórum steyptum hnullungum og áhrifin þess að rölta þarna um eru nokkuð yfirþyrmandi eins og listamaðurinn ætlaði.

>> Minningarreitur um Berlínarmúrinn (Gedenkstätte Berliner Mauer) – Ómissandi stopp í Berlín er þessi sérstaki minningarreitur til minningar um þann fjölda fólks er lét lífið við að flýja yfir múrinn er skipti borginni upp. Undarlega lítið sóttur af ferðamönnum en afskaplega áhrifamikið og auðveldlega hægt að gera sér í hugarlund þvílíkt þrekvirki var að reyna flótta. Reiturinn stendur við Bernauer Straße en gatan sjálf á sér mikla sögu sem gerð er grein fyrir. Jarðlest að Bernauer. Opið daglega 10 – 18. Heimasíðan.

>> Tempelhof flugvöllur (Flughafen Tempelhof) – Einn þekktasti flugvöllur seinni tíma er þessi hér en honum var formlega lokað árið 2008. Miklar og merkilegar byggingar vallarins standa auðar eftir og er á þessari stundu óvíst hvað verðum um flugvöllinn. Þó hafa verið haldnar þar miklar veislur og hátíðir síðan hann lokaði og ekki útilokað að opna hann ferðamönnum. Þangað til er sjón að fara þar hjá enda flugvöllurinn ekki fjarri miðborginni.

>> Brandenborgar hliðið (Brandenburger Tor) – Eigi Berlín sér eitthvað sérstakt tákn er það vafalaust Brandenborgar hliðið. Er það öllu tilkomuminna í raunveruleikanum en margir halda en engu að síður glæsilegt mannvirki þó hallað hafi töluvert á glæsilegheitin með nýjum byggingum allt í kring. Nú síðast nýtt sendiráð Bandaríkjanna þétt þar við hlið. Við hliðið er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Hliðið stendur á gatnamótum Unter den Linden og Ebertstraße og er hið eina sem stendur enn af alls átta slíkum hliðum sem á sínum tíma lágu inn í borgina.

>> Dýragarður Berlínar (Zoo Berlin) – Eitt stærsta sædýrasafn heims og ómissandi stopp fyrir allt smáfólk. Þessum garði tilheyrir ennfremur mikið og stórt sædýrasafn og óvíða fleiri tegundir að sjá en hér. Safnið er staðsett í Tierpark garðinum sem sjálfur er fallegur og afslappandi. Jarðlest að Zoologischer Garten. Opið 9 – 18 yfir sumartíma en 9 – 17 þess utan. Aðgangur 2100 fyrir fullorðna en þúsund krónur fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

>> Charlottenburg höllin (Schloss Charlottenburg) – Það er ekki að ósekju sem þessi reisulega höll er meðal vinsælustu áfangastaða ferðamanna í Berlín. Mikið og merkilegt mannvirki og garðarnir engu síðri. Hægt er að skoða hluta hallarinnar gegn gjaldi en spáss um garðana kostar ekkert. Jarðlest að Richard Wagner platz. Opið 9 – 17 alla daga nema mánudaga. Heimasíðan.

>> Heimsgarðurinn (Gärten der Welt) – Afskaplega fróðlegt að kíkja hingað. Hér má sjá margvíslegar útgáfur af görðum með tilheyrandi plöntum og stíl. Ljúfur og þægilegur staður til að slaka á og njóta. Jarðlest að Marzahn og strætisvagn 195 þaðan að Eisenach stræti. Opið 9 – 20 á sumrin en 9 – 17 á veturna. Aðgangur 550 krónur. Heimasíðan.

>> Wannsee vatn (Wannsee) – Fátt er þægilegra í sumarhitum en steypa sér í ferskt vatn og það gera Berlínarbúar í stórum stíl við Wannsee vatn. Er reyndar um tvö slík að ræða en hið stærra er öllu vinsælla. Er það nokkuð frá Berlín í grennd við Potsdam en ferðalagið er þess virði enda mikið mannlíf og vatnið sannarlega ferskt. Þá er hér öll þjónusta. Það var við bakka vatnsins sem nasistar lögðu á ráðin um útrýmingu gyðinga og í byggingu þeirri er það var ákveðið er nú safn. Lest númer 1 frá Berlín að Nikolassee.

>>Ríkisóperuhúsið (Staatsoper Unter den Linden) – List og menning gegnir ægistóru hlutverki hjá Berlínarbúum og þess til marks eru í borginni heil fjögur óperuhús. Þetta er hið merkasta og fallegasta af þeim öllum og byggingin afar glæsileg. Þá er dagskráin alltaf metnaðarfull og þess virði að sjá jafnvel þó þýskukunnátta sem engin. Jarðlest að Hausvogteiplatz. Heimasíðan.

>> Alexandertorg (Alexanderplatz) – Mekka hins austurþýska hluta borgarinnar var Alexanderplatz og hefur þessu merkilega torgi verið gert góð skil í kvikmyndum um áraraðir. Það er sannarlega austurþýskt í útliti og hvergi bólar á grænni grund heldur eingöngu steinsteypu og undarlegum skúlptúrum. Hingað er frábært að koma í kjölfar heimsóknar á Ku´Damm sem var sambærilegur staður fyrir íbúa í vesturhlutanum og upplifa muninn.

>> Stasi skjalasafnið (Stasi Museum) – Fátt er meira niðurdrepandi í þessari frísku borg en aka að Stasi skjalasafninu sem er hýst í afar fráhrindandi austur-þýskri byggingu. Hér er aragrúi skjala á öllum hæðum og leiðsögn er um hluta safnsins sé þess óskað en í raun er ekkert að sjá. Þá er andinn innandyra ekki upp á marga fiska enda var það héðan sem örlög þúsunda réðust með geðþóttaákvörðunum og pennastriki einu saman. Ruschestraße 103. Opið 10 til 18 virka daga og 12 til 18 um helgar. Aðgangseyrir 900 krónur. Heimasíðan.

>> Grunewald garðurinn (Grunewald)  –  Hér að ofan er fjallað um vatnið Wannsee sem er tæknilega hluti af Grunewald garðinum sem er stærsti skógargarður Berlínarborgar og æði vinsæll meðal borgarbúa yfir sumartímann. Fjölmargt er hér í boði þá fyrir unga sem aldna og algjör perla til að grípa nesti, nýja skó og teppi og setjast niður og njóta. Hér er líka stór og mikill haugur, Teufelsberg, sem er lokaður af en hægt að skoða með leiðsögn um helgar. Haugurinn atarna er ekkert annað en safn alls kyns drasls sem hent var hingað þegar borgin var ein rjúkandi rúst eftir Seinni heimsstyrjöldina.

>> Múrgarðurinn (Mauer Park)  – Ekki kannski sérstaklega fyrir augað þessi garður í Prenzlauer Berg en sé orka í kroppi og stuð í stíl er fjandi gaman að eyða hér stund um helgar að sumarlagi. Snemma hefst einn skemmtilegasti markaður borgarinnar þar sem allt er falt og mikil læti og stemmning. Engu minni stemmning er síðdegis þegar allir sem þora geta troðið upp á stóru karaókísviði og tekið lagið fyrir framan þúsundir. Engar áhyggjur af sönghæfileikum; þetta snýst meira um skemmtun enda margir byrjaðir að fá sér og undirbúa kvöldið.

Verslun og viðskipti

Berlín er almennt talað ein allra ódýrasta borg Evrópu og úrvalið hér engu minna en í stórborgum heimsins og jafnvel betra ef eitthvað er.

Það skiptir þó máli hvar verslað er. Séu fágaðir og fínir hlutir á efnisskránni skal haldið beinustu leið á Ku´Damm og nærliggjandi götur. Þar eru allar helstu merkjabúðirnar á litlum bletti auk fjölda annarra „betri“ þýskra verslana. Hér þarf ekki að fara langt yfir skammt sé eitthvað sérstakt á óskalistanum. Ómissandi stopp þar er stórverslunin KaDeWe, Kaufhaus des Westerns, sem er þó í litlu frábrugðin öðrum stærri verslunarmiðstöðvum. Þó finnst mörgum til um sjöttu hæðina þar sem útibú frá Múlakaffi er til staðar en mest töluvert meira og betra úrvali en þar gerðist.

Hvað verslun varðar austan megin er Friedrichstraße án alls efa verslunargata verslunargatnanna. Allnokkrar stórverslanir er þar að finna og sennilega fremst meðal jafningja Galeries Lafayette. Nokkrar góðar smávöruverslanir eru einnig hér en gatan þá almennt í dýrari kantinum.

Alexanderplatz hefur gengið í endurnýjun lífdaga sem verslunarhverfi og fjölmargar góðar smærri verslanir þar auk verslunarmiðstöðvarinnar Galeria Kaufhof. Þá eru nokkrar fínar verslanir í Hackescher Markt við enda Orianenburger Straße og fínt að kíkja þar inn áður en kvölda tekur en þá breytist hverfið í djammhverfi dauðans.

Fyrir þá sem ekki hafa endalaust djúpa vasa er ráðlegast að finna eitthvað við hæfi í Prenzlauer Berg, Kreuzberg eða Friedrichschain hverfunum. Þar er þó fyrst og fremst um smærri verslanir að ræða.

Berlínarbúar sækja flóamarkaði stíft og einir þrír stórir eru hér haldnir.
 • Straße des 17. Juni – Stærsti flóamarkaðurinn undir beru lofti er þessi hér í Tiergarten. Jarðlest að Tiergarten. Opinn um helgar milli 11 og 19.
 • Mauerpark – Sá nýjasti og fjölbreyttasti í Berlín. Jarðlest að Eberswalder Straße. Opinn sunnudaga 8 – 18.
 • Arkonaplatz – Þessi er aðeins spottakort frá Mauerpark. Jarðlest að Eberswalder Straße. Sunnudagar 9 – 18.
Einar tólf verslunarmiðstöðvar finnast í Berlín. Þær helstu eru:
 • Europa Center – Þessi við Breitscheidplatz er komin nokkuð til ára sinna en hana er auðvelt að finna enda risavaxið Benz merki á toppi næstu byggingar. Inni má sjá merkilega klukku, Klukku hins fljótandi tíma, og á þakinu er hægt að fá þyrluflug yfir Berlín í þyrluhermi. Flestar verslanir opnar alla daga milli 10 og 20.
 • Gesundbrunnen Center – Í Badstraße í Wedding hverfinu er þessu nýtískulega miðstöð. Jarðlest til Gesundbrunnen. Opið daglega milli 10 – 20.
 • Schönhauser Allee Arkaden – Við samnefnda götu stendur þessi litla verslunarmiðstöð en þó með hefðbundnum verslunum. Jarðlest að Schönhauser Allee. Opið 10 – 21 alla daga.
 • Alexa – Í suðurhluta Alexanderplatz er nýjasta viðbótin í verslunarmiðstöðvaflóru borgarinnar. Jarðlest að Alexanderplatz. Opið 10 – 22 alla daga.
 • Linden Center – Önnur tiltölulega lítil og sæt. Jarðlest að Höhenschönhausen. Opið 9:30 – 20 alla daga.
 • Potsdamer Platz Arkaden – Nýleg og glæsileg miðstöð í háhýsahverfinu Potsdamer. Jarðlest að Potsdamer Platz. Opið 10 – 21.
 • KaDeWe – Ekki verslunarmiðstöð í eiginlegri merkingu heldur meira af stórverslunartaginu. Þetta er stofnun í Berlín og þarna fæst allt milli himins og jarðar. Jarðlest að Wittenbergplatz. Opið 9:30 til 20.

Matur og mjöður

Hvernig sem á því stendur verða ferðamenn í Berlín þess fljótt áskynja að matur almennt í borginni er með allra ódýrasta móti í Evrópu allri. Hnausþykkar argentínskar steikur fást hér undir tvö þúsund krónum og skyndibitar á borð við þýskar pylsur í næsta söluturni kosta allt niður í 120 kall. Þá er óminnst á matarverð í verslunum sem þrátt fyrir arfaslaka krónu er merkilega ódýrt.

Þjóðverjar eiga sinn bæjarins besta og á þeim stöðum er lágmark að prófa hina sérstöku karríwurst pylsu. Er það þýsk ofupylsa með tómatsósu og karríi og þykir herramannsmatur.

Engin vandkvæði eru á að finna staði við hæfi enda úrvalið frábært víðast hvar í borginni. Hér gildir hið fornkveðna að spyrja annaðhvort heimamenn ellegar setjast inn á staði þar sem heimamenn eru í áberandi meirihluta. Þannig er öruggt að maturinn stenst kröfur og enginn verður svikinn. Gera má ráð fyrir gróflega áætlað að hægt sé að borða sig vel og fullan á velflestum ágætum stöðum með víni vel undir fimm þúsund krónum.

Til umhugsunar: Þjóðverjar almennt hafa aldrei tekið neitt sérstaklega vel á móti kreditkortafyrirtækjum. Þess vegna er ráð að spyrja hvort kort séu tekin á veitingastöðum og kjörbúðum. Það er ekkert gefið.

Þrjú hverfi sérstaklega eru vænleg vilji menn ganga að miklu úrvali vísu hvað mat varðar. Svæðið kringum Hackescher Markt eða Orianenburger er kjaftfullt af góðum veitingastöðum. Í Kreuzberg er tonn af ágætum stöðum á tyrkneska vísu og ekki síður stöðum frá mið Austurlöndum og Asíu. Þá þykir Kastanienallee gata meðal skemmtilegri kosta hvað mat varðar.

Þjórfé er venja hér og flestir heimamenn námunda þjórfé upp um 5-15 prósent eða svo en eðlilega er öllum frjálst að gefa eins og þeir kjósa. Þjónustufólk fær greidd laun og þjórfé skiptir ekki höfuðmáli.

Drykkjumenning Þjóðverja er heimsþekkt og ræður bjórinn þar ríkjum. Þó er unga fólkið mikið fyrir kokteila og margir kokteilbarir skotið rótum í borginni Bjórsalir eru víða í Berlín og góð stemmning hefðin þar. Ómögulegt er að mæla með sérstöku hverfi þar sem öll búa þau yfir börum af ýmsu tagi en Kreuzberg er vinsælt og sama gildir kringum Orianenburger þó sú gata sé vissulega óspennandi út á við sökum vændiskvenna. Prenzlauer Berg er önnur. Taka skal þessu þó með fyrirvara því óþarfi er að fara langt yfir skammt. Góður bar er sjaldan lengra en fimm mínútur frá neinum punkti í Berlín.

Að síðustu er ráð að fylgjast með hvort sérstakar hátíðir eru í borginni þann tíma sem þar er dvalið. Berlínarbúar margir eru djammarar dauðans eins og þar stendur eins og sést hvað best á fjölda götu- og hverfaveislna. Slíkar eru reglulega haldnar í mörgum götum borgarinnar yfir sumartímann. Að þeim frátöldum eru í Berlín stærri partí á borð við:

 • Love Parade – einhver mesta danshátíð heims þar sem þúsundir dansa og skemmta sér á götum úti eins og heimsendir sé í nánd. Allt að tveimur milljónum manna sækja þetta mikla partí árlega. Haldið í júlí. Myndband hér. Athugið að hátíðin er ekki haldin í Berlín 2009 og 2010 en aðstandendur vona að 2011 verði svo aftur.
 • Berliner Festspiele – Fjölbreytt úrval tónlistarhátíða sem fram fara undir merkjum Berliner Festspiele. Fjölbreytt tónlist á fjölbreyttum tímum. Sjá heimasíðu fyrir viðburði og dagsetningar.
 • Berlinale – Kvikmyndahátíðin í Berlín er orðin ein af þeim allra stærstu. Frumsýningar daglega og stjörnunar vappa um.
 • Fullmoon Festival – Fimm daga stanslaust danspartí fyrir alla sem fíla teknó.

Líf og limir

Berlín er merkilega örugg borg miðað við allt það sem gengið hefur þar á gegnum tíðina. Skipting borgarinnar, innflytjendavandræði um árabil og ekki síst nýnasista sem af og til gera sig líklega til leiðinda.

Hinn venjubundni ferðamaður ætti ekki að lenda í neinu alvarlegra en veskjaþjófnaði eða slíku í flestum hverfum borgarinnar. Helst er að varast austustu hverfi borgarinnar fyrir þá sem hafa annan húðlit en hvítan.

Á stundum er töluvert vesen í stöku hverfum þann 1. maí ár hvert þegar kröfugöngur snúast upp í átök og ofbeldi

Í vöxt hefur farið betl að ýmsu tagi en yfirvöld hafa tekið slíkt nokkuð föstum tökum og ástandið mun betra en í mörgum öðrum borgum álfunnar.

Hafa skal í huga að vændi er leyfilegt í Þýskalandi og er áberandi á nokkrum götum borgarinnar sérstaklega kringum Orienanburger. Vændihús eru víða en mun fleiri í austurborginni en vestur.

View Larger Map