Sitt sýnist hverjum um Benidorm á Spáni. Víst er að vinsælli áfangastaðir Íslendinga gegnum tíðina þar í landi finnast vart en þeim fjölgar sífellt sem misst hafa allan áhuga á Benídorm sem sumardvalarstað enda er borgin eitt allra versta dæmið um fjöldatúrisma sem fyrirfinnst í Evrópu allri.

Einu gildir hvort fólk fílar staðinn eður ei að Benidorm er tiltölulega tóm skel hvað kúltúr varðar. Þarna er jú fyrirtaks strönd og allir þeir hefðbundnu veitingastaðir og ensku og írsku barir sem margir vilja ekki vera án. En annað býður þessi borg ekki upp á.

Íbúafjöldi Benidorm telur tæplega 70 þúsund manns en stór hluti þeirra eru Bretar og Írar sem settust hér að í miklum mæli og telja allt að tíu þúsundir sem hér eiga heimili. Er þetta að heita eina borgin í landinu þar sem skýjakljúfar eru áberandi enda kölluð Manhattan Spánar.

Þó hér sé fjöldi fyrirtækja lifir borgin alfarið á ferðaþjónustu og þó fallið hafi mjög á glansann undanfarin ár eiga hundruð þúsunda áskrift að ferð hingað ár hvert. Það er því auðvelt að hitta sama fólkið aftur og aftur ár eftir ár.

Til og frá

Frá Íslandi bjóða ferðaskrifstofurnar upp á flug til Alicante sem er næstu alþjóðaflugvöllur við Benídorm en sá rúntur tekur klukkustund. Heitir sá Aeropuerto de Alicante og er hann nýtískulegur og nokkuð þægilegur þrátt fyrir smæð.

Fyrir utan að leigja eigin bíl sem er tiltölulega ódýrt og þægilegt eru aðeins tvær aðrar leiðir færar til og frá flugvellinum til Benidorm. Annars vegar með leigubíl en það kostar aldrei minna en 11 þúsund krónur aðra leið.

Hinn möguleikinn er rúta númer 30 er gengur beint til Benídorm. Fer ein slík á klukkustundar fresti. Miðaverð aðra leiðina fyrir einstakling er 2.200 krónur.

Hægt er að fara inn í Alicante og taka rútu eða sporvagn þaðan en á því sparast engin ósköp og er bölvað fyrirtæki ef margir eru að ferðast saman. Strætisvagn C6 gengur til og frá vellinum og miðborgar Alicante, Plaza Puerta del Mar, á 20 mínútna fresti frá 6 á morgnana til 23 á kvöldin.

Samgöngur og skottúrar

Litlar áhyggjur þar. Benídorm er lítil og að strandsvæðinu frátöldu ekkert þess virði að sjá í öðrum hverfum enda íbúðahverfi fyrst og fremst. Engir vagnar ganga um bæinn sjálfan en í útjaðri hans er rútustöð og þaðan er auðvelt að fara í lengri eða skemmri ferðir í allar áttir.

Söfn og sjónarspil

>> Landbúnaðarsafnið (Museo Agrícola de Benidorm) – Sé áhugi á landbúnaði í þessum hluta landsins er hér að finna ágrip af þeirri sögu auk muna sem notaðir eru og voru við þann atvinnuveg. Ómissandi stopp fyrir Guðna Ágústsson en sleppur sem skjól fyrir heitustu sólinni fyrir aðra. Safnið stendur við Plaza de Toros. Opið daglega 10 – 17. Aðgangur ókeypis.

>> Vaxmyndasafnið (Museo de Cera) – Við Avenida de Mediterráneo stendur þetta léttvæga vaxmyndasafn. Yfir 130 vaxmyndir af frægu og ekki svo frægu fólki í stíl við önnur vaxmyndasöfn heimsins. Opið daglega 10 – 20. Aðgangur 500 krónur.

>> Tindátasafnið (Museo de Soldados de Plomo) –  Annað léttvægt safn en skemmtilegt í sama húsi og vaxmyndasafnið. Tindátar í þúsundavís uppsettir við aðstæður sem áttu sér stað í raun og veru. Opið daglega 10 – 20. Prísinn 700 krónur.

>> Heimilissafnið (Casa Museo) – Langbesta listasafnið í borginni en engan veginn á pari við það sem best gerist sé einhver í vafa. Engu að síður töluvert að sjá eftir ýmsa listamenn. Byggingin sjálf falleg líka. Aðeins opið seinnipartinn milli 18:30 og 22. Ókeypis aðgangur.

>> Sædýragarður (Mundomar) – Fjölbreyttur en sálarlaus sædýragarður. Smáfólkið mun þó brosa út í eitt yfir höfrungum, selum og mörgum öðrum dýrum sem leika listir fyrir gesti og gangandi alla daga. Þá eru hér líka dýr sem ekkert eiga skylt við sæinn. Opið 10 – 22 alla daga. Aðgangseyrir 2900 krónur fyrir fullorðna en 2100 fyrir smáfólk yngra en þrettán ára. Heimasíðan.

>> Ævintýralandið (Terra Mitica) – Einn stærsti og skemmtilegasti skemmtigarður Evrópu og ómissandi stopp fyrir smáfólk upp á áttræðu. Skipt niður í fimm mismunandi lönd með fjölmörgum tækjum og forvitnilegum tólum sem henta hinum ýmsu aldurshópum. Auðvelt að eyða heilum degi hér og glæsilegt útsýni til allra átta. Opið 11 – 20 alla jafna en til 2 um nóttina yfir hásumarið. Skemmtun þessi er þó fokdýr og punga fullorðnir út 5800 krónum fyrir dagpassa. Smáfólkið borgar 4300 krónur. Töluverður afsláttur er veittur ef keyptir eru vikupassar. Heimasíðan.

>> Vatnsheimur (Aqualandia)  – Vinsæll vatnsleikjagarður og reyndar skrambi skemmtilegur þegar hiti er allt að drepa yfir hásumarið. Mikill fjöldi vatnsrennibrauta fyrir unga sem aldna og veitingar og annað nauðsynlegt á hverju strái. Aqualandia er við hlið sædýragarðsins Mundomar og ágætt að eyða dagsstund með því að heimsækja báða staði í einu. Aðeins opinn yfir sumartímann. Miðaverð 3.600 fyrir fullorðna en 2.800 fyrir ungri en átján ára. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Auðvitað er hægt að versla hér glingur og drasl en megnið af því er líka glingur og drasl í stíl við það sem jafnan er selt í strandbæjum Spánar. Verslunargötur finnast hér og merkjabúðir líka en þar sem erlendir ferðamenn eiga bæinn eru verðin enn hærri en ella. Ekki hægt að mæla með alvarlegri verslun hér. Sé lífið ómögulegt án þess er helsti verslunarkjarninn í eða við ströndina.

Hvað varðar handunna muni og smærri hönnunarverslanir er best að heimsækja gamla bæinn upp með Levante-strönd. Sérstaklega er gott úrval verslana við Passeig de la Carretera og Avenida Jaime I. Sömuleiðis nóg úrval við Plaza Mejor.

Vilji fólk sjá sem mest á einum stað er La Marina verslunarmiðstöðin vænlegasti kosturinn.

Síðast en ekki síst eru starfræktir markaðir hér ágætir. Þeir skárstu eru við Levante-strönd og flóamarkaðurinn, Rastro, sem báðir eru opnir á miðvikudögum og sunnudögum.

Matur og mjöður

Gnótt staða um allt en enga Michelin staði finnur þú hér. Stöku betri veitingastaðir en velflestir hefðbundnir spænskir fjölskyldustaðir og töluvert af skyndibitastöðunum sem bjóða þjóðarrétt Breta, fisk og franskar. Allra besta ráðið að spyrja traustan heimamann eða starfsfólk á hótelinu en veitingastaðir á betri hótelum eru líka yfirleitt með ágætan mat á boðstólnum.

Spænskir heimamenn sjálfir fara jafnan í Spænska hverfið við Playa de Poniente en þar finnast ýmsir litlir staðir fljótt koma í ljós á göngutúr.

Djamm og djúserí

Bókstaflega út um allt allar nætur yfir sumartímann og reyndar gott betur. Fjöldi stærri bara og klúbba meðfram allri strandlengjunni og úrvalið meira en komist verður yfir með góðu móti.

Líf og limir

Þjófnaður er nokkuð algengur hér um slóðir og innbrot ekki óalgeng. Geyma öll verðmæti á öruggum stað á sér eða í geymsluhólfi því hæfir þjófar komast framhjá öllum vörnum á stuttum tíma.

[vc_facebook type=“standard“] [vc_tweetmeme type=“horizontal“] [vc_googleplus annotation=“inline“] [vc_message color=“alert-info“]
[/vc_message] [vc_gmaps title=“RATVÍSI“ link=“https://www.google.com/maps/ms?msid=207098679894180417098.0004deea898a917d252c7&msa=0&ll=38.542057,-0.12557&spn=0.036453,0.084543″ size=“250″ type=“m“ zoom=“14″]
[vc_flickr title=“KÓDAK MÓMENT“ flickr_id=“84783631@N00″ count=“8″ type=“group“ display=“latest“ el_position=“last“]