Þ að er til marks um geldingshátt markaðsfræðinga að það má varla finnast vatnspollur í nokkurri borg eða nokkrum bæ án þess að menn hlaupi til og kynni staðinn sem Feneyjar þetta og Feneyjar hitt. Ein þeirra borga sem þannig hafa verið kynntar er hin mjög svo ágæta Aveiro í Portúgal. Hún á betra skilið.
Aveiro er út á við kynnt sem Feneyjar Portúgal sem að okkar mati er jafn gáfulegt og kalla Blönduós Feneyjar Íslands. Vissulega eru hér síki og stórt lón fyrir utan borgina. Vissulega eru hér bátar sem minna á gondóla og vissulega klæða bátsmenn sig vel í takt við góndólaræðara í Feneyjum. En þar með lýkur öllum samanburði.
Aveiro er hreint út sagt einn yndislegasti strandbær Portúgal og góðu heilli dálítið utan hefðbundinna dvalarstaða erlendra ferðamanna. Víst hefur hún komist meira og meira á kortið nú síðari ár en ekki svo mikið að þar sé ekki hægt að njóta án þess að þar sé ekki þverfótað um aðra ferðamenn. Við skulum bara vera hreinskilin: það er öllu minna spennandi að þvælast á stöðum þar sem ekkert er komist fyrir öðru ferðafólki… eins og til dæmis í Feneyjum sjálfum.
Til og frá
Til Aveiro koma langflestir keyrandi eða með lestum. Engir eru alþjóðaflugvellir hér í grennd og þarf að fara norður í rúma klukkustund til Porto ellegar suður til Lissabon til að finna næstu alþjóðaflugvelli. Hér er innanlandsvöllur, Aerodromo de Aveiro, ef menn eru á harða spretti en langflestir láta sér nægja skemmri hálfs dags eða dagsferðir hingað og þá einna helst frá Porto eða Coimbra.
Samgöngur og skottúrar
Aveiro er þægilega stór, eða lítil eftir smekk manna, og röskir menn fara létt með að ganga hér um allt á skömmum tíma. Ekki hvað síst vegna þess að borgarlandið er flatlendi frá a til ö. Þess gerist þó engin þörf því sáraeinfalt er að komast milli þeirra staða sem heillandi er að sjá og upplifa. Hér gengur túristavagn um helstu staði og er fljótlegasta leiðin til að sjá það sem spennandi er að sjá. Önnur góð leið ef tíminn er góður og formið líka er að hjóla um borgina. Leiguhjól er víða hægt að finna um borgina. Kostar eina evru að leigja þau í nokkrar stundir.
Söfn og sjónarspil
>> Miðbakki (Canal Central) – Það er þessi skurður eða síki sem skiptir borginni svo að segja í tvennt og borgaryfirvöld hafa gert þennan hluta æði heillandi hin síðustu ár. Ekki nóg með að hér fari um smærri fiskibátar með afla sinn kvölds og morgna heldur og þvælast svokallaðir moliceiros um með ferðafólk en moliceiros eru fallega skreyttir bátar heimamanna og minna um margt á gondóla Ítala. Það eru reyndar bátar þessir fremur en síkin sem er orsök samanburðarins við Feneyjar. En þá er ekki allt upp talið heldur er meginhluti húsa sem við Miðbakka standa báðu megin í hreint yndislegum Art nouveau stílnum og málum hinum yndislegustu litum. Auðvitað eru hér ljúf kaffihús, barir og veitingahús þar sem taka má inn sælu og finna frið í hjarta augnablik eða svo.
>> Borgarsafnið (Museu de Aveiro) – Þetta safn er merkilegra en nafnið gefur til kynna því það hafa ekki allir áhuga að kynna sér í þaula sögu hverrar borgar sem þeir heimsækja á ferðalögum. Það er húsakosturinn sem hér er aðalatriðið en safnið var áður fyrr klaustur eitt sem byggt var á fimmtándu öld og hér bjó lengi vel ein dætra Afonso konungs tíunda. Sú átti raunar eftir að vekja athygli eftir dauðann vegna kraftaverka sem hún átti að hafa framið. Grafhýsi hennar er hér innandyra og þykir eitthvað hið fallegasta sem fyrirfinnst. Opið 10 til 17:30 daglega nema mánudaga. Avenida de Santa Joana Princesa. Aðgangseyrir 600 krónur.
>> Dómkirkjan (Sé Catedral) – Beint á móti borgarsafninu er þessi dómkirkja Aveiro. Hún er í minni kantinum en falleg að sjá.
>> Lýðveldistorgið (Praça da Republica) – Fallegasta torg Aveiro er þetta en við það standa bæði ráðhús borgarinnar og önnur kirkja, Misericordia, sem einnig er afskaplega falleg að utan.
>> Barra vitinn (Farrol de Barra) – Einn glæsilegasti viti Portúgal finnst við Barra ströndina skammt frá borginni. Þessi 62 metra hái viti er bæði fallegur og opinn skoðunar hvenær sem er sólarhringsins.
>> Sandöldur São Jacinto (São Jacinto) – Eina glæsilegustu sandströnd landsins er ekki að finna í Algarve heldur hér við Aveiro. São Jacinto heitir ströndin og er að hluta til þjóðgarður líka.
Verslun og viðskipti
Þó verðlag hér í borg sé gott miðað við íslenskar verslanir er þetta ekki alveg staðurinn til að spranga búð úr búð. Til þess er bærinn of lítill og þó hér megi finna merkjavöruverslanir inn á milli er úrvalið takmarkaðað.
Að því sögðu þá eru hér tveir verslunarkjarnar. Besta verslunargatan er Avenida Dr. Lourenço Peixinho en þar eru meðal annars nokkrar merkjabúðir. Handhægara er um vik í Mercado Negro þar sem listafólk hefur tekið gamla þreytta byggingu og sett í nýjan og betri búning og þar er að finna nokkrar verslanir þegar þetta er skrifað.
Þá er smábærinn Vista Alegre kjörinn til að versla handgerða hluti frá þessum hluta Portúgal. Flísar þaðan þykja með þeim allra bestu í landinu og er þá mikið sagt.
Matur og mjöður
Já og amen við því. Aveiro er fiskimannabær og hér má setjast inn á lélegasta veitingastað og fá fyrirtaks sjávarrétti. Saltfiskur á portúgalskan máta er ljúffengur en ekki síðri en sérstakur réttur héraðsins sem er álakássa fyrir þá sem eru opnir fyrir nýjungum. Annað gott fyrir sykurelskendur er Ovos Moles sem er sykursæt eggjahvíta í hinum ýmsu formum.
Líf og limir
Rólegur bær og vandræði ólíkleg nema fólk stofni til þess sjálft.