Í innan við 20 mínútna keyrslu frá Las Palmas, höfuðborg Kanarí, er að finna þrjá æði fagra fjallabæi sem alls óhætt er að heimsækja dagsstund og njóta. Arucas er einn þessara bæja.
Arucas er reyndar vel innan við 20 mínútur frá Las Palmas. Þangað komist á tíu mínútum eða svo ef umferð er ekki þung. Strætisvagnar 206,210 og 234 fara frá Las Palmas og hingað.
Bærinn komst á kortið á sínum tíma fyrir mikla ræktun sykurreyrs og banana og það meira og minna allt til útflutnings. Það skilaði mun betri tekjum en að selja vörurnar á eynni og fyrir vikið voru hér lengi vel meiri peningar í umferð en í nágrannabæjum sem ræktuðu sömu afurðir.
Það skýrir til dæmis æði tilþrifamikla gotneska dómkirkju bæjarins, Iglesia de San Juan Bautista, en sú virðist einhvern veginn allt of stór og flott fyrir þetta lítinn bæ. Sú byggð í byrjun 20. aldarinnar og efnið í hana að hluta til sérstök tegund blágrýtis sem aðeins finnst hér í grenndinni.
Arucas býr líka að mjög indællri aðalgötu í miðbænum. León y Castillo strætið er Laugavegur Arucas-búa en hér fer þó ívið meira fyrir smærri börum og kaffihúsum en verslunum.
Þá er hér, eins og víða í bæjum á Kanarí, fallegur lystigarður. Jardin de la Marquesa, Garður greifynjunnar, er einn af þeim bestu á eynni með yfir 500 tegundir af plöntum til sýnis.
Rúsínan í pylsuendanum í Arucas er svo vafalítið bruggverksmiðja Arehuacas en þar hefur verið framleitt romm í tæplega 150 ár. Framleiðslu Arehuacas má finna á nánast öllum börum landsins og þykir afar vel heppnað romm í samanburði við þekktari erlend merki. Verksmiðjan hefur tekið miklum breytingum gegnum tíðina og hana má skoða alls ókeypis. Sérstaklega merkilegt að vitna vínkjallarann þar sem rommið er gerjað í vel yfir 600 eikartunnum.