Þó mörgum finnist ferðamannafjöldinn yfirgnæfandi allan ársins hring á Costa del Sol á Spáni er enn tiltölulega einfalt að finna bæi og þorp þar sem ferðamennska hefur ekki litað allt í gegn. Til þess þarf þó oftar en ekki að halda upp í fjöllin burt frá ströndunum. Minnst ein undantekning er á þessu. Strandbærinn Aquadulce.
Kannski ofmælt að segja að í Aquadulce finni fólk hinn sanna spænska bæjaranda. Það er þó staðreynd þegar þetta er skrifað að við þrönga strönd bæjarins eru eignir undantekningarlítið í eigu Spánverja og lítið af yfirgnæfandi hótelum á öllum bestu stöðunum.
Það er afbragð að okkar mati nú þegar velflestir strandstaðir Spánar eru 99 prósent kolmengaðir af fjöldatúrisma og varla verður vart við heimafólk á vappinu. Mörgum slétt sama um slíkt en okkur hér ekki. Lítið vit í ferðum og ferðalögum ef allir staðir eru eins.
Það sem gerir Aquadulce ennþá sérstakari er að bærinn er nánast úthverfi í borginni Roquetas de Mar. Sú borg gegnsósa af hótelum og ferðamannastöðum eins og þeir vita sem dvalið hafa þar.
Það er því sallafínn kostur að dvelja frekar í Aquadulce ef ferðinni er heitið á þessar slóðir. Bærinn sjálfur ekki mikið spennandi fyrir utan strandlengjuna en fyrir ró og afslöppun er þetta kjörstaður. Engin ósköp við að hafa ef tryllingur og hasar er á dagskránni en þá er líka stutt að halda til Roquetas de Mar.