Antalya og nágrenni hefur á skömmum tíma náð vinsældum hjá Evrópubúum enda sama sólin þar og á Spáni og Ítalíu en öllu ódýrara að njóta hennar. Strendurnar jafnast ekki á við það allra besta í veröldinni en eru góðar til brúksins og þá er mikil náttúrufegurð við þessa strandlengju.

Ferðaskrifstofur gera mikið úr gestrisni heimamanna en það er langsótt. Þeir eru eðlilega ánægðir með þá seðla sem þeir hafa af ferðamönnum en að gestrisni sé í sérstökum hæðum er tómt bull.

Antalya er vinsælasti áfangastaðurinn á tyrknesku rivíerunni sem svo er kölluð en slíkir stimplar eru ekki endilega jákvæðir. Það þýðir að svæðið er að verða eins og hver önnur ströndin á Spáni þar sem líf bæjarbúa snýst meira um að hafa peninga af ferðamönnum en standa vörð um menningu sína og hefðir en þar er af miklu að taka. Það skal þó tekið fram að undantekningarlítið er þjónustufólk afar kurteist og vingjarnlegt.

Ekki á að koma á óvart að sólin skíni á Antalya. Hún gerir það alls staðar í heiminum. Strendurnar hér eru tiltölulega hreinar og öruggar og margar þeirra hafa fengið Bláfánastimpil fyrir vikið. Náttúrufegurð er eðlilega í augum sjáandans en umhverfi Antalaya er heillandi enda stutt í fjöllin til norðurs og strandlengjan hér er listavel skorin og skemmtileg. Mest þó kannski um vert að ýmsir stórkostlegir sögustaðir eru í næsta nágrenni en elstu minjar um manneskjur í öllu Tyrklandi finnast í grennd við Antalya.

Flest hótelin hér bjóða upp á „allt innifalið” og sem slík eru mjög samkeppnishæf. Með aukningu ferðamanna hefur aukist úrval dægrastyttingar og má finna þar flest það sem finna má annars staðar á vinsælum ströndum. Engum þarf því að leiðast þó vissulega þyki á stundum bagalegt hversu fáir almennt eru talandi á enska tungu.

Verðlag er þar mjög hagstætt enda ekki evrusvæði. Góð máltíð kostar frá 600 til 1200 krónum og skulu menn vera alls óhræddir að prófa rétti innfæddra sem margir eru lostæti. Matarmenningin er af Miðjarðarhafstoga með tyrknesku kryddi.

Antalya er ekki auglýstur sérstaklega sem skíðasvæði en það merkilega er að hægt er að skíða í brekkum Beydaglan fjalls 300 daga á ári en þangað er klukkustundar akstur frá ströndum Antalya. Er varla til stórkostlegra andartak en líta niður af fjallstoppum Taurus fjalla í eðal skíðafæri þráðbeint niður á strönd.

Með vaxandi vinsældum Antalya fjölgar einnig þeim er misjafnt hafa í hyggju. Þannig er sterklega varað við öllum skartgripaverslunum á svæðinu. Þær eru meira eða minna skjól fyrir smyglara og bæði vörurnar og viðskiptin geta verið vafasöm.

Það ætti ekki að koma á óvart að það eru líka fjórar árstíðir á Antalya en heiti þeirra samkvæmt heimamönnum er sérstakt. Það eru haust, vetur, vor og helvíti.

Til og frá Antalya

Aðeins einn flugvöllur þjónustar Antalya. Sá kallast Fraport IC og er lítill en góður og tiltölulega einfaldur. Sá er í fjórtán kílómetra fjarlægð frá bænum og tekur 20 til 30 mínútur að fara á milli.

Sé um skipulagða hópferð að ræða flytur rúta farþega til og frá. Sé ferðast á eigin spýtum er engin önnur leið inn í bæinn en með flugvallaskutlum frá fyrirtækinu Havas ef frá eru taldir leigubílar. Rúturnar ganga á 30 mínútna fresti inn í miðbæ Antalya. Miði aðra leið kostar 880 krónur.

Fyrir leigubíl má búast við að greiða þurfi öllu hærra verð. Eðlilegt verð er milli 3.600 til 4.200 krónur fyrir farið. Allmargir setja aukakostnað á vegna ferðataska.

Samgöngur og snatterí

Antalya er engin stórborg og ekki flókið að fara um fótgangandi. Reyndar er mælt með því að fara um á tveimur jafnfljótum enda ýmislegt að sjá og skoða og blástur frá hafi kemur í veg fyrir að hitinn verði yfirgnæfandi.

Að þessu sögðu er gnótt svokallaðra dolmusa á ferð um bæinn og út úr bænum. Þetta eru litlir sendibílar eða smárútur sem farþegar geta flaggað hvar sem er þó strangt til tekið séu ákveðnar stöðvar sem þeir stöðva alltaf á á leiðum sínum. Greiða skal gjaldið þegar stigið er frá borði aftur. Þeir eru mjög ódýrir og góð leið til að eyða síðdegi eða svo. Þeir fara einnig milli nágrannabæja.

Hefðbundnir leigubílar eru hér líka og tiltölulega ódýrir líka. Í lengri ferðum er alveg óhætt að prútta um verð svo lengi sem það er gert fyrirfram. Hafa skal þó í huga að ekki margir leigubílstjórar eru vel talandi á enska tungu.

Sporvagnar ganga meðfram einni línu í borginni meðfram ströndinni og reyndar alla leiðina að Lara strönd til austurs. Ágætir til brúks og fara framhjá mörgum forvitnilegum stöðum eins og miðbænum, Kalekapisi, Fornleifasafninu, Borgarhliði Hadríans auk fleiri staða. Þeir eru þó hægir í ferðum og eru aðeins tvær. Þeir fara frá stöðvum sínum á eins og hálfs klukkustundar fresti milli 7 og 21 alla daga.

Söfn og sjónarspil

Antalya er á söguslóðum og sem slíkur forvitnilegri staður en sólarstrendur á Ítalíu eða Spáni. Þá er strandlengjan sjálf falleg enda fjölbreytt. Milli sendinna strandanna má finna klettaskorna voga þar sem lítið mál er að fá frið frá vælandi börnum, sköllóttum Bretum og óþreytandi sölumönnum. Mælt er sterklega með að taka röltið meðfram ströndinni einn dag eða svo.

>> Gamli borgarhlutinn (Kaleici) – Langmest heillandi hluti Antalya er gamli borgarhlutinn. Götur þröngar eins og nýjustu gallabuxurnar og milli þeirra hús byggð úr timbri og því sem til fékkst annað á þeim tíma innan virkisveggja sem reyndar er farið að sjá verulega á.

>> Smábátahöfnin (Çelebi Antalya Marina) – Það eru reyndar fjórar litlar hafnir fyrir smábáta í Antalya en búið er að byggja svæðin upp á smekklegan hátt og gnótt bara og veitingastaða til að velja þar úr í snyrtilegu umhverfi.

>> Útileikhúsið (Aspendos) – Gamalt en heillegt útileikhús frá tímum Rómverja sem heimamenn hafa reynt eftir megni að verja fyrir ágangi tímans og tekist vel upp. Leikhúsið staðsett í bænum sjálfum og því þarf ekkert að gera annað en rölta um.

>> Fornminjasafn Antalya (Antalya Muzesi) – Nýlegt og afar gott og stórt safn muna sem hér hafa fundist gegnum tíðina og er þar af nógu af taka. Bærinn var tiltölulega mikilvægur á öldum áður og hér hinir ýmsu stríðsherrar sett upp bækistöð til skemmri eða lengri tíma. Flott stopp þegar nóg er komið af brennheitri sólinni. Staðsett við Konyaalti. Aðgangseyrir 950 krónur. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Í nágrannabæjum flestum er líka ágæt söfn að finna og í bænum Side eru ein fjögur slík þar sem einnig gefur að líta forna muni sem hér hafa fundist.

Verslun og viðskipti

Nei! Ferðabæklingar eru fullir af tillögum um fína verslun ekki síst á antíkvörum, leðri og slíku en megnið af vörum seldum í bænum eru gæðalítil og oft á tíðum eftirlíkingar. Alvöru verslun fer ekki fram hér þó finna megi falsaðar tískuvörur hjá götusölunum hér sem víðast annars staðar.

Matur og mjöður

Matur í Tyrklandi er almennt góður og í Antalya er það sama uppi á teningnum. Hér er mikill fjöldi tyrkneskra staða auk þessara hefðubundu vestrænu skyndibitastaða ef þetta tyrkneska er ekki að gera sig. Mælt er sterklega með að prófa eitthvað af réttum á óskiljanlegum matseðli því reynsla ristjórnar Fararheill.is er að það er oftar en ekki merkilegt góðgæti. Gera má ráð fyrir að góð kvöldmáltíð kosti manninn ekki meira en þúsund krónur að meðaltali.

Tyrkir eiga sína drykki líka og hér er sem annars staðar enginn skortur á börum og drykkjuholum af ýmsu taginu.

Líf og limir

Heilbrigð skynsemi skilar fólki betur hér en annars staðar enda mesta hættan í Antalya sú að vera plataður eða prettaður. Sú starfsemi er algeng hvort sem er hjá leigubílstjórum eða þjónum á veitingastöðum.

Götusalar selja undantekningarlaust eftirlíkingar og gæta skal þess að kaup ekkert gull eða skartgripi hér. Þeir eru líkast til líka eftirlíkingar.

Að flestu öðru leyti er Antalya öruggur staður til að vera á.

View Larger Map