Skip to main content

N óvember þykir þér kannski ekki spennandi mánuður til að heimsækja Amsterdam enda vetur farinn að banka upp á þar líka. En það er þá sem einn mest spennandi dagur ársins gengur í garð.

Fólk sem hatar söfn gæti skipt um skoðun í Amsterdam

Fólk sem hatar söfn gæti skipt um skoðun í Amsterdam

Það er í byrjun nóvember ár hvert sem hin geysivinsæla Safnanótt, Museumnacht, fer fram en það er einmitt hollenska safnanóttin sem er fyrirmynd allra annarra slíkra sem fara fram víða í borgum heims.

Sökum þess að söfn í Amsterdam eru mörg hver í heimsklassa er viðburðurinn hér þó skemmtilegri en víðast annars staðar. Það á bæði við menningarlega en ekki síður þess utan því Hollendingar eru góðir heim að sækja og góða skapið oftar en ekki með í farteskinu þegar haldið er út í því landi.

Vel yfir 400 söfn og staðir eru sérstalega opin og með dagskrá safnanóttina og víða er boðið upp á vín og jafnvel smárétti svona í og með listaverkunum. Sömuleiðis grípa bareigendur tækifærið og skreyta margir staði sína fyrir þennan dag. Allt auðvitað opið vel fram á nótt og í stöku tilfellum undir morgunn.

Fararheill hefur verið á staðnum þessa nótt og býður þess aldrei bætur í jákvæðri merkingu. Aðeins einn annar dagur kemst með tærnar þar sem safnanóttin hefur hælana í Amsterdam og það er sjálfur Drottningardagurinn í apríl. Sá þó meira djamm og djúserí eða bara Amsterdjamm eins og við köllum það.

Við getum blaðrað út í eitt um dásemdirnar en þetta þarf hver maður að upplifa á eigin skinni. Og ritstjórn Fararheill skal öll hundur heita ef einhver snýr aftur af safnanótt með skeifu á munni.

Allt um safnanóttina hér.

PS: Safnanótt trekkir ferðamenn víða að og því gott ráð að bóka gistingu með góðum fyrirvara til að koma í veg fyrir að greiða allra hæsta verð.