Borgin sem varð útundan. Þannig er stundum talað um borgina Almeríu á suðausturströnd Spánar sökum þess að meðan sprenging varð í fjöldatúrisma beggja vegna borgarinnar og héraðsins; á Costa del Sol til vesturs og Costa Blanca til norðausturs, voru borgaryfirvöld í Almería með hugann við eitthvað allt annað.

Almería og strandlengja héraðsins var því nokkuð hrein mey samanborið við velflesta aðra staði við strendur Spánar en það hefur tekið breytingum allra síðustu árin. Hér hafa viðskiptamógúlar ákveðið að Almería verði næsti „heiti“ staður Spánar og uppbyggingin hefur verið hröð síðan.

En það verður að segjast eins og er að Almería hefur, að frátöldum ágætum ströndum og auðvitað glampandi sólina yfir, afskaplega lítið upp á að bjóða. Eina raunverulega afþreyinging hér er hangs á ströndum.

Þó er hvergi á byggðu bóli í heiminum eins mikil gróðurhúsaræktun og hér og þúsundir ferkílómetra fara undir þá ræktun. Sú ræktun hefur verið afar umdeild enda fyrsta og fremst ólöglegir innflytjendur sem þar starfa meðan eigendurnir maka krókinn. Ekki síður heldur vegna þess að ræktunin þarf gríðarlegt magn af vatni en sú auðlind er af skornum skammti í héraðinu.

Borgin sjálf er sem slík ekki frábrugðin öðrum bæjum á suðurströnd Spánar. Hún er eðalfín séu sólböð og bjórdrykkja á dagskránni en fyrir þá sem vilja eitthvað meira nægir tveggja klukkustunda stopp áður en lengra er haldið.

Í borginni búa 120 þúsund manns og hún er fræg meðal Spánverja fyrir tvennt. Kastalann mikilfenglega Alcazaba og að hér er stærsta nektarströnd Spánar.

Til og frá

Flugvöllur Almería, Aeropuerto de Almeria, er níu kílómetrum frá borgarmörkum. Þrjá leiðir eru í boði héðan ef ferðast er á eigin spýtum; leigubílar, bílaleigubíll eða rútur.

Leigubílar eru ávallt fyrir utan flugstöðina og má gera ráð fyrir að fargjald inn í Almeríu kosti milli 2.500 og 2.800 krónur.

Strætisvagn 20 fer milli flugvallarins og borgarinnar og er langódýrasti kosturinn. Gallinn þó sá að túrinn tekur tíma því víða er stoppað á leiðinni. Fargjaldið er þó brandari eða 260 krónur. Vagnar fara á 40 mínútna fresti á virkum dögum en tveir tímar geta liðið milli vagna um helgar og kvöldin.

Nokkrar bílaleigur eru starfræktar á vellinum en ekki alltaf opnar nema pantað sé með fyrirvara. Auðvelt er að aka um Almeríu hérað enda umferð töluvert minni en reglan er á vinsælli dvalarstöðum. Hraðbraut A12 liggur beint til borgarinnar.

Samgöngur og skottúrar

Hér eru eingöngu strætisvagnar en það dugir mætavel enda borgin lítil og fæstir ferðamenn eiga mikið erindi út fyrir miðborgina. Fyrirtækið Surbus sér um samgöngukerfið og á heimasíðu þess má finna leiðakerfið í heild sinni. Miðaverð er 270 krónur.

El Paseo er helsta gata borgarinnar og falleg að auki. Þau hverfi sem fallegust er í borginni að gamla miðbænum frátöldum eru La Chanca og La Joya. Hið fyrrnefnda ber meiri keim af Afríku en Evrópu.

Söfn og sjónarspil

>> Alcazaba virkið (Alcazaba de Almeria) – Að frátöldu hinu stórfenglega Alhambra í Granada er þetta virki hér líklega merkustu minjar um veru Mára á Spáni á sínum tíma. Reyndar var Alcazaba hluti af virkjum sem Arabar settu upp til verndar Alhambra en sjö önnur slík virki er að finna hringinn kringum Alhambra. Alcazaba er þeirra mikilfenglegast. Virkið stendur hátt yfir borginni með útsýn langt yfir hafið og jafnvel yfir til Afríku þegar skyggni er sérstaklega gott. Rétt fyrir neðan virkið er svo að finna leifar af rómversku hringleikahúsi. Brattur stígur er upp að virkinu en leiðin er fagurlega skreytt og þess virði sé fólk í góðu líkamlegu ástandi. Aðrir ættu að taka lyftuna sem einnig er í boði. Virkið opið til skoðunar milli 9:30 og 19 alla daga. Aðgangur 730 krónur en frítt fyrir íbúa innan Evrópusambandsins.

Til umhugsunar: Sé eitthvað eitt svæði borgarinnar skoðunar virði er það Barrio de la Chanca sem er rétt við Alcazaba virkið. Þar eru allmörg heimili fólks byggð í hellum enn þann dag í dag en sá háttur var æði vinsæll hér og í nágrenninu á árum og öldum áður. Mörg þessara eru algjör snilld.

>> Almeríu safnið (Museo de Almería) – Helsta safn borgarinnar er við Carretera de Ronda og hýsir að mestu muni er fundist hafa við uppgröft í héraðinu. Töluvert magn muna er beint úr Alcazaba virkinu og nágrenni. Ekkert yfirgnæfandi spennandi nema fyrir áhugafólk. Strætó 2,6 eða 7 að safninu. Opið 14 – 20:30 virka daga nema mánudaga og 9 – 14:30 um helgar. Aðgangseyrir 440 krónur. Heimasíðan.

>> Neðanjarðargöngin (Refugios de Almería) – Borgarbúar brugðu á það ráð í spænsku borgarastyrjöldinni að byggja töluvert af göngum til að vernda sig og sína enda var borgin sprengd töluvert. Hægt er að skoða þessi göng sem eru stór og mikil. Plaza Manuel Peréz García gegnt Puerta Purchena. Opið 10 – 14 virka daga nema mánudaga og 10 – 14 og 17 – 21 um helgar.

>> Enska bryggjan (El Cable Inglés) – Árið 1904 byggðu Bretar hér allsérstaka bryggju sem hafði þann tilgang einan að flytja járn úr námum Almeríu beint út í bresk skip í höfninni. Nær bryggjan sú heilan kílómetra út í höfnina, er 17 metra há, og er allsérstakt fyrirbæri að skoða. Þó bryggjan sé á skrá sem þjóðararfur var það aðeins árið 2010 sem borgaryfirvöld hófust loks handa við endurbætur en fram að þeim tíma var hún í niðurníðslu. Í framtíðinni á að vera þarna afþreyingarmiðstöð og veitingastaðir. Ensku bryggjuna er auðvelt að sjá úr fjarska en hún er við hlið smábátahafnarinnar.

>> Dómkirkjan (La Catedral) – Í gamla borgarhlutanum ber dómkirkjan höfuð og herðar yfir annað. Bygging hennar hófst árið 1522 og var byggð sem blanda af endurreisnar- og gotneskum stíl. Kirkjan per se fær engin fegurðarverðlaun en er sérstök að því leytinu til að hún tvöfaldaði sem virki gegn sjóræningjum. Sjá má á toppi hennar fallbyssugöt í veggjunum. Á austurvegg dómkirkjunnar má sjá sólarskúlptúr, Sol de Portocarrero, sem er tákn borgarinnar í dag. Kirkjan er auðfundin í miðborginni við samnefnt torg.

>> Santiago musterið (Templo de Santiago) – Við Calle de las Tiendas er að finna þessa elstu kirkju borgarinnar sem reyndar lætur lítið yfir sér.

>> Aire heilsulindin (Aire de Almeria)  –  Afar glæsileg heilsulind sem við mælum með finnst við Plaza de la Constitución. Þar er uppgert rómverskt heilsubað og allt hér hundrað prósent. Heimasíðan.

>> Kvikmyndasafnið (Casa del Cine)  –  Lítið safn og ekki ýkja heillandi nema fyrir þá sem áhuga hafa á kvikmyndagerð hér um slóðir frá fornu fari. Þó má ekki gleyma að það var hér í grennd sem margar eldri Hollywood kvikmyndir voru gerðar og þar af margar vinsælar kúrekamyndir. Sagan segir að John nokkur Lennon hafi líka dvalið í þessari fallegu byggingu þegar hann samdi Strawberry Fields Forever. Kvikmyndasýningar fara hér fram á ákveðnum tímum og stundum undir beru lofti. Heimsókn er aðeins möguleg með fyrirvara og í hópum. Calle Camino Romero. Miðaverð 600 krónur.

>> Listasafn Almeríu (Centro de Arte Museo Almeria)  –  Sæmilegt borgarlistasafn og áherslan auðvitað á verk úr héraði. Því miður státar Almería ekki af mörgum vel þekktum listamönnum en heimsókn er samt góð fyrir alla sem listhneigðir eru. Plaza de Carlos Cano.

Til umhugsunar: Sem fyrr segir hefur Almeria héraðið lengi dregið að lið frá Hollywood enda miklar eyðimerkur hér í grennd. Nægir að nefna kúrekamyndir Sergio Leone´s með Clint Eastwood sem dæmi, Schwartzenegger gerði sitt hér sem Conan á sínum tíma og fjölmargar senur stórmyndarinnar um Arabíu Lawrence voru teknar hér. Tvö svæði sérstaklega hafa gjarnan verið notuð í þessum tilgangi. Annars vegar náttúruparadísin Cabo de Gata sem er í raun þjóðgarður og við Tabernas, Desierto de Tabernas, þar sem enn standa gamlar leikmyndir úr kúrekamyndum fyrri tíma. Innan við hálftíma akstur er til beggja staða frá borginni.

Matur og mjöður

Engir matsölustaðir í Almeríu eru neitt á leiðinni í Rauðu bók Michelin og því miður reyndar eru flestir staðir hér copy-paste af túristastöðum annars staðar í landinu. Skítsæmilegur matur á sæmilegu verði en leitun er að veitingastöðum sem eru skör ofar en það.

Þó er óhætt að gera undantekningar þegar kemur að sjávarréttastöðum en þeir eru nokkrir afar fínir hér. Hráefnið kemur beint úr bátum heimamanna ferskt og frábært. Nokkrir frambærilegir eru Club de Mar við Playa de la Almadrabillas sem er opinber veitingastaðir Siglingaklúbbs borgarinnar. Restaurante Mediterráneo við Plaza Flores er klassískur og þess virði og síðast en ekki síst La Encina við Plaza Vieja. Þá getum við líka óhikað mælt með Casa Puga við Calle Jovellanos en þar fást frábærir tapas og ekki er bjórinn síðri.

Mjöð er hér alls staðar að finna og hefðbundnir spænskir barir að finna um alla borg.

Verslun og viðskipti

Líklegt má telja að kaupglaðir Íslendingar verði vart glaðir lengi því takmarkað úrval er hér af verslunum. Lítið svæði í miðborginni er í raun eina verslunarsvæði borgarinnar og þar gatan Paseo de Almeria fremst í flokki. Verðlag er ágætt. Ein verslunarmiðstöð er hér sem kveður að. Hún heitir Mediterraneo og stendur við samnefnda götu.

Líf og limir

Alles gut hér. Minni fjöldi fólks þýðir minni glæpir og fátítt að ferðamenn eigi í nokkrum erfiðleikum. Stöku veskjaþjófnaður er þó hér sem annars staðar.