G ulir og glaðir er velþekkt mottó Skagamanna í fótboltanum hér heima en með fullri virðingu fyrir þeim ágæta hópi stuðningsmanna fer lítið fyrir gleðinni þar á bæ miðað við hópinn sem þekktur er sem appelsínugulir og glaðir.
Það eru Hollendingar og þann 30. apríl ár hvert er þörf á mikilli þolinmæði gagnvart þeim fallega lit.
Þá fagna landsmenn Drottningardeginum og sá krefst einskis af þátttakendum nema appelsínugul klæði og vilja til veislu.
Hátíðin er langstærst í Amsterdam og Haag en víðast hvar um landið eru veislur og partí á götum úti og þá er betra að vera í appelsínugulum fötum en ekki.
Upphaflega hugmyndin var að fagna afmæli Julíönu drottningar en í dag fer harla lítið fyrir henni og dagurinn meira eins og almennur þjóðhátíðardagur.
Ferðalangar þurfa ekki að leita lengi séu þeir ókunnir. Nægir að ganga á hljóðið á flestum stöðum í borgum landsins. Í Amsterdam nægir reyndar að vera með heyrn hvar svo sem fólk er statt. Þetta er fullorðins.
Fararheill mælir sterklega með þessum viðburði fyrir alla með neista í kroppi enda dans, djamm, bros og tónlist um borg og bý og Hollendingar, sem alltaf eru góðir heim að sækja, í enn betra skapi en venjulega.