M eð sína 120 þúsund íbúa er Álaborg ein af örfáum borgum í Evrópu svona nokkuð á pari við höfuðborg Íslands hvað íbúafjölda varðar. Álaborg þó töluvert yndislegri borg en Reykjavík að okkar mati og með allra bestu borgum Danmerkur.
Álaborg hefur komið langa leið síðan bærinn fékk einkaleyfi að salta síld á fimmtándu öld en hefur að mestu haldið forskoti sem helsti iðnaðarbær Danmerkur. Kvarnast hefur úr talsvert á undanförnum árum en enn er iðnaður af ýmsu tagi fyrirferðarmikill. Ferðaþjónusta er orðin áberandi. Það breytir ekki því að bærinn er heillandi að mörgu leyti þó seint fari hann í bækur sem stórkostleg perla.
Stærsta aðdráttarafl bæjarins fyrir ferðalanga er án alls efa dýragarðurinn Aalborg Zoo. Hann er einstakur að mörgu leyti enda má þar finna dýr sem ekki finnast annars staðar í Skandinavíu. Afrískir fílar, grænlenskir birnir eða síberískir tígrar. Mikið er gert úr umhverfi þeirra og er garðurinn virkilega þess virði að heimsækja. Heimasíða dýragarðsins hér.
Álaborgarslot, Aalborghus Slot, þykir prýði og ekki skemmir að sá er staðsettur skammt frá miðbænum á Jörgensensvej. Garður slotsins er afar fallegur líka. Sömu sögu er að segja um nokkra sautjándu aldar kofa sem enn prýða miðborgarsvæðið. Það mega Danir eiga að þeir hafa listilega haldið við mörgum gömlum byggingum sínum.
Aðrir staðir sem skoðunar eru virði er dómkirkja borgarinnar, Budolfi domkirke, Steinhús Jens Bang, Jens Bangs Stenhus, við Nytorv þykir ein fallegasta bygging í endurreisnarstíl í allri Danmörku og þótt víðar væri leitað. Grábræðraklaustur var mikil smíð á sínum tíma. Nú má sjá á neðanjarðarsafninu Gråbrødrekloster undirstöður upprunarlega klaustursins sem byggt var árið 1250. Þá finnst mörgum gaman að fara upp í Álaborgarturn, Aalborgtårnet, sem er 55 metra hár útsýnispallur þaðan sem sjá má langt yfir borgina og út Limafjörð.
Þá er ekki úr vegi fyrir arkitekta og eða listunnendur að eyða stund í Tónlistarhúsinu, Musikkens Hus, við Utzon-setrið eða Utzon Center á frummálinu eða listasafnið Kunsten . Hið fyrstnefnda er allsérstakt og glæsilegt tónlistarhús sem einnig doblar sem viti. Utzon setrið er menningarmiðstöð á heimsvísu hannað af Jorn Utzon. Ef það nafn hringir engum bjöllum ætti að nægja að benda á að Utzon hannaði hið fræga óperuhús Sidney í Ástralíu svo fátt sé nefnt. Kunsten safnið er hannað af hinum heimsfræga Alvar Aalto og ber þess skýr merki.
Alls óhætt er fyrir söguþyrsta að gera sér ferð að Lindholmshæð, Lindholm Hoje, spottkorn til norðurs frá borginni. Ekki aðeins er útsýn frá hæðinni atarna yfir borgina til suðurs heldur má hér finna einn stærsta greftrunarstað Víkinga sem fundist hefur. Hér hafa fundist hátt í sjö hundruð grafir og þær meira og minna merktar og stikaðar af og það er dálítið mögnuð sjón.
Mesta skemmtunin er þó Álaborgar Karnivalið sem er norræn vasaútgáfa af Brasilíukarnivali en hefur undanfarin ár heppnast æði bærilega og heillar orðið töluvert af erlendum ferðamönnum sem hingað koma sérstaklega yfir þann tíma.