Skip to main content
F erðaskrifstofur landsins aðeins farnar að vakna til lífs enda teikn á lofti um að einhvers konar ferðalög verði heimil og eða takmarkalaus seint í vor eða snemmsumars. GB ferðir auglýsa nú hreint ágæta golfferð til Tenerife af öllum stöðum.

Ekkert amalegt við þetta og völlurinn þykir góður. Skjáskot

Sjá má allt um málið á vef GB ferða en það er tiltölulega sjaldgæft að fólk haldi þangað í golfferðir. Sem má furðulegt heita því það er merkilegur fjöldi valla á þeirri litlu eyju og ekkert út á loftslag og hita að setja.

Vikutúr með gistingu og daglegu golfi á Buena Vista Golf á Tenerife með vorinu og  í haust fæst hjá GB fyrir 269 þúsund krónur á kjaft miðað við tvo saman. Alls 538 þúsund krónur á parið. Beint flug og bæði taska og golfpoki meðferðis og bæði morgun- og kvöldverður innifalinn.

Ók, maður hefur séð það verra og fátt er ljúfara en að spila golf og dvelja á einum og sama staðnum. Það hámark ljúfheitanna eða hámark leti eftir því hvernig á er litið.

En er þetta góður díll?

Verð á gistingu og golfi fyrstu vikuna í maí á vef Buena Vista á Tenerife. Skjáskot

Sé leitað að vikudvöl í byrjun maí á hótelinu með ótakmörkuðu golfi og bæði morgunverð og kvöldmat fæst slíkur pakki á parið 332 þúsund krónur fyrir tvo saman. Hér um að ræða pakka sem ekki er hægt að fresta eða afpanta.

Kjósi fólk afpöntunarmöguleika og fá þannig stærsta hluta fjárins endurgreiddan ef fresta þarf ferð er lágmarksverðið fyrir tvo alls 360 þúsund krónur.

Við kjósum auðvitað afpöntunarpakkann á 360 þúsund krónur enda annað fráleitt á þessum kórónatímum.

En þá kemur babb í bát ekki satt? Munurinn á 360 þúsund krónum og 538 þúsund krónum er litlar 178 þúsund krónur!!!

Sem merkir að flugferðirnar einar og sér með Icelandair kosta manninn rétt tæplega 90 þúsund krónur. Fjörutíu og fimm þúsund krónur hvora leið fyrir sig. Sem er nokkuð hærra en við þurftum að greiða fyrir flug til Tene og heim aftur með tösku og golfpoka hér þegar samkeppni ríkti í flug fyrir tveimur árum síðan. En alls ekkert yfirgengilegt miðað við stöðu mála.

Við mælum með þessu.