Skip to main content

H ver vill ekki ríða fíl? Það er eitthvað það allra vinsælasta sem erlendir ferðamenn gera í Taílandi, Kambódíu, Laos og Srí Lanka og annars staðar þar sem fílareið er í boði. En yfirgnæfandi fjöldi þeirra fíla sem ferðamenn fá að sitja í þessum löndum búa við hrapallegar aðstæður og fá illa meðferð.

Gaman, gaman. En ekki gaman fyrir fílana sem flestir fá hræðilega meðferð.

Það er niðurstaða viðamikillar könnunar dýraverndunarsamtakanna World Animal Protection sem gerði út fólk til allra ofangreindra landa til að kanna hvaða meðferð þeir fílar sem notaðir eru dags daglega til að skemmta erlendu ferðafólki fá þegar enginn sér til.

Í ljós kemur að þegar enginn er að vagga túristaseðlum hátt á lofti eru velflest dýrin keðjuð niður í þröngum búrum og hafa litla möguleika til hreyfingar utan þess að tölta með skælbrosandi túrista um hvippinn og hvappinn.

Rannsóknin leiddi í ljós að af rúmlega þrjú þúsund fílum sem notaðir eru til túrisma í þessum löndum bjuggu 77 prósent þeirra við ömurlegar aðstæður milli þess sem þeir voru brúkaðir til að græða peninga af ferðafólki. Matur af skornum skammti, mikil þrengsli í búrum og oftast hörð steingólf til hvíldar. Þeir fílar sem ekki voru í búrum voru gjarnan tjóðraðir niður með keðjum sem náðu ekki sex metrum að lengd. Því litlir möguleikar til hreyfingar sem er fílum nauðsyn ekki síður en öðrum spendýrum jarðar. Þá nutu innan við 20 prósent dýranna einhverrar aðstoðar dýralæknis þegar eitthvað á bjátaði. Þá kom í ljós að yfir helmingur dýranna hafði verið tekinn frá villtum foreldrum sínum eftir aðeins nokkrar vikur og settir í strangt æfingaprógramm.

Með öðrum orðum þá er velferð dýranna EKKI í hávegum höfð í þessum löndum og nema þér þyki dýraníð hið besta sem fram hefur komið á jörðu er kannski óvitlaust að sleppa fílaferðum á þessum slóðum. Aðeins hugsandi fólk getur breytt óhugsandi fólki í þriðja heims löndunum.