Skip to main content

Forseti Filippseyja er litríkur fýr og að líkindum heilaskemmdur miðað við athafnir hans og orð gegnum tíðina. Hann hafði þó meira vit í kolli en ýmsir frammámenn í Mývatnssveit.

Forseta Filippseyja ofbauð svo þegar skólp og viðbjóður flaut á götum og ströndum eins allra vinsælasta ferðamannastaðs landsins að hann lokaði pleisinu með manni og mús í nokkra mánuði. Mynd ABC News

Sem kunnugt er hafa forsprakkar í ferðaþjónustu á Mývatni um árabil yppt öxlum þegar kom að losun skólps frá hótelum og gististöðum. Fínasta mál að sá viðbjóður renni lóðbeint í stórkostlegt Mývatnið enda kostar það ekkert og allir græða. Nema náttúran auðvitað.

Duterte, forseti Filippseyja, ekki alveg af því sauðahúsinu þó skrýtinn sé. Karli ofbauð svo fyrr í vetur þegar skólplagnir á einum allra vinsælasta ferðamannastað Filippseyja, Boracay, gáfu sig vegna ferðamannafjölda með tilheyrandi mengun og viðbjóð, að hann gerði sér lítið fyrir að lokaði staðnum eins og hann lagði sig meðan endurbætur færu fram. Vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna á Filippseyjum er því lokaður ferðafólki næstu SEX MÁNUÐI.

Vissulega harðar aðgerðir og vissulega högg fyrir þau 80 prósent af íbúum Boracay sem lifa af ferðamennsku. En mikil ósköp er þetta annars til fyrirmyndar. Ef borgaryfirvöld ráða ekki við vandann eða láta sér fátt um finnast þá tekur forsetinn til sinna ráða og tekur af skarið hvað sem tautar og raular. Óskandi að forseti Íslands hefði haft þessi völd meðan hóteleigendur á Mývatni létu skólp renna í tonnatali í einu helstu náttúruperlu Íslands og brostu bara í bankanum…