Það er fátt athugavert við Viaduct Tavern knæpuna í London. Þvert á móti er þessi ekta breski pöbb afar heillandi bæði innan sem utan og ekki skemmir staðsetningin rétt við Old Bailey á besta stað í miðborginni. En hér er ýmislegt á seyði sem enginn sér.

Ljúfur gamaldags breskur pöbb. Eða hvað? Mynd Eric.Parker
Ljúfur gamaldags breskur pöbb. Eða hvað? Mynd Eric.Parker

Það fullyrða bæði bareigendurnir, þjónar og aðrir hópar fólks sem hér segjast reglulega sjá bregða fyrir vofum úr fortíðinni. Barinn atarna er reyndar notaður að hluta undir fundi sérstaks hóps fólks í borginni sem rannsakar draugagang og yfirnáttúruleg atvik.

Fullyrðingar um reimleika og illa anda fá reyndar byr undir vængi þegar fólk heyrir sögu þessa staðar. Því þó barinn sýnist með þeim allra virðulegustu í dag þá var þetta áður fyrr einhver mesta skítaknæpan í London. Knæpa af því taginu þar sem menn drógu upp hnífa af minnsta tilefni. Hér var til dæmis vændiskona myrt á klósettinu þegar verst lét.

En þar með er sagan ekki öll sögð. Því áður en knæpa var sett á stofn hér var þetta eitt illræmdasta fangelsi í Bretlandi. Giltspur fangelsið var notað undir allra mesta sorann í bresku þjóðfélagi á sínum tíma. Það allra merkilegasta er að fangelsisklefarnir eru hér ennþá í kjallaranum, þeir elstu frá árinu 1791. Staðarhaldarar eða þjónar taka mætavel í óskir um að fá að kíkja niður í kjallarann. Að lokinni þeirri ferð lítur fólk þennan bar ekki sömu augum.