Ahhhh. Svo margar grískar eyjar, svo lítill tími. Hvað gera menn þá til að upplifa þær flestar og á sem ódýrastan hátt mögulegan?

Er eyjahopp málið eða best að eyða tíma sínum á einum stað? Mynd Thomas Bougher
Er eyjahopp málið eða best að eyða tíma sínum á einum stað? Mynd Thomas Bougher

Í fylgiblaði Fréttablaðsins þennan daginn er ágæt umfjöllun um þær fjölmörgu grísku eyjar sem heillandi þykir flestu lifandi fólki en þær skipta þúsundum í heildina.

Það sem vantar þó í þá umfjöllun er að til Grikklands er alls ekki komist á einfaldan né ódýran hátt héðan frá Íslandi. Úrval ferða hjá innlendum ferðaskrifstofum er mjög takmarkað og þá helst takmarkað við Krít þangað sem Heimsferðir, Vita og Úrval Útsýn bjóða ferðir. Aðeins Heimsferðir bjóða upp á flug eingöngu og fram og aftur kostar fargjaldið litlar 103 þúsund krónur á mann eða 206 þúsund fyrir hjón eða par. Svipað verð og að fljúga frá Finnlandi til Tælands, Víetnam eða Kína.

Það er drjúg upphæð fyrir flug eingöngu og kannski það sem verra er er að þó Krít sé skoðunar virði þá er hún í hvað mestri fjarlægð frá bæði meginlandinu og öðrum þeim eyjaklösum sem kannski er hvað merkilegast að skoða hér. Bara sigling frá Chania á Krít til Aþenu tekur rúmar tíu klukkustundir aðra leiðina og þrjár til fimm stundir í næstu eyja til norðurs.

Það er því töluverð fyrirhöfn að nota Krít sem byrjun langi fólk í eyjahopp. Öllu nær er að nota Mykonos sem upphafsstað en sú er bæði með þeim fallegri og fjöldi ferja fara fram og aftur héðan til nágrannaeyja. Mykonos er hluti af Cyclades eyjaklasanum í Eyjahafinu en þeim klasa tilheyra meðal annarra Ios, Santorini, Syros, Kea, Serifos og Naxos svo fáar séu nefndar.

Hið frábæra er að til Mykonos er komist á æði ódýran máta nenni fólk að millilenda í Sviss. Lággjaldaflugfélagið easyJet flýgur beint frá Keflavík og til Basel allt fram á haustið og þangað er komist samkvæmt athugun á vef þeirra frá 25 þúsund krónum í ágúst svo dæmi sé tekið fram og aftur. Í ágúst er líka hægt að komast áfram fram og aftur til Mykonos frá 30 til 50 þúsund krónum. Með þessum hætti sparar parið sér um 60 þúsund krónur á fluginu umfram það sem Heimsferðir bjóða og getur hafið eyjahopp sitt á vænlegri stað en ella.

Svo bara leita hér að neðan að hentugum hótelum á Cyclades svæðinu og voilà!