Eins og ritstjórn Fararheill hefur oft komið inn á er þessi heimur okkar dæmalaust dásamlegur og óskiljanlegt að við séum ekki öll á faraldsfæti við hvert einasta tækifæri til að taka það allt inn.

Ekki óvenjuleg sjón í heitari löndum heims. En óvenjuleg sjón í New York. Mynd Great Big Story
Ekki óvenjuleg sjón í heitari löndum heims. En óvenjuleg sjón í New York. Mynd Great Big Story

Eitt lítið dæmi um þetta má finna í Brooklyn hverfinu í New York af öllum stöðum. Sömu New York þar sem vetur eru nokkuð harðir og hitastig þann tíma fer nokkuð reglulega undir frostmark.

Frostmark er ekki kjörhitastig hitabeltisdýra eins og gefur að skilja og þarf reyndar sterk bein til að lifa af við slíkar aðstæður fyrir dýr sem eiga sér kjörlendi í löndum þar sem hitastig fer vart niður fyrir 20 gráður allt árið.

Þess vegna kemur öllum verulega á óvart að í Brooklyn hverfi er að finna hópa páfagauka sem þar fljúga frjálsir um og njóta sín ekki síður en ættingjar sunnar á hnettinum. Slíkir hópar, þó litlir séu, hafa gert það í 40 ár hvorki meira né minna.

Hvort sem þú ert áhugamaður eða áhugakona um fugla eða bara forvitin um þetta skemmtilega hverfi er margt vitlausara en skrá sig í páfuglaskoðun hjá eina aðila borgarinnar sem það býður. Það kostar ekki neitt og verður í versta falli góður göngutúr. Í besta falli eitthvað miklu meira.

Heimasíða Brooklyn Parrots hér þar sem fá má nánari upplýsingar.