Það er einhvern veginn lágmarkskrafa þegar lággjaldaflugfélag hefur samkeppni við hefðbundið flugfélag á einni og sömu leiðinni að lággjaldaflugfélagið bjóði lægra verð en hinn aðilinn. En ekki á það við um ferðir Wow Air til Chicago í Bandaríkjunum.

Gettu hvor býður lægra verð til Chicago í sumar 🙂 Samsett mynd

Wow Air tilkynnti í dag um sína tíundu flugleið vestur um haf og í þetta sinn til Chicago í Illinoisfylki en þangað hefur Icelandair flogið um eins árs skeið eða svo.

Eðalgóðar fréttir að fá samkeppni og gildir þá einu hvert það er nema hvað lágfargjaldastimpill Wow Air er heldur betur farinn að ryðga.

Það má glöggt sjá á meðfylgjandi töflu en þar leituðum við að lægsta fargjaldi til Chicago aðra leiðina fyrir einn með töskudruslu meðferðis í júlí, ágúst og september.

Einhver kann að benda á að Wow Air bjóði fargjald án tösku og nokkurs annars og það fargjald sé lægra en það sem hér sést. Víst er það svo en við skulum líka vera hreinskilin. Eða hvert okkar er að fljúga alla leið til Chicago og heim aftur án þess að pakka meiru en tíu kílóum í handfarangur? Við fullyrðum að 99 prósent þurfa drýgri töskuheimild en það. Þess utan auglýsir Wow Air sig ekki bara sem lággjaldaflugfélag þegar fólk ferðast með ekkert.

Með það í huga er Icelandair einfaldlega að fljúga töluvert hærra en lággjaldaflugfélagið Wow Air í tveimur tilfellum af þremur.

* Úttekt gerð kl. 21 þann 27. mars 2017 hjá báðum aðilum samtímis. Fargjald aðra leið út fyrir einn með innritaðan farangur. Hafa skal hugfast að fargjöld breytast ört hjá báðum flugfélögum.