Við værum að ljúga ef við segðumst ekki hafa talið dagana þangað til það gerðist. Það var jú óumflýjanlegt að hörmungarþjónusta Wow Air félli loks niður á sama par og hins ekki-svo-æðislega-flugfélags Iceland Express.

Á fimm árum hefur Wow Air stóraukið farþegafjölda sinn og hagnað og á sama tíma minnkað alla þjónustu við nögl á dverg. Skjáskot

Engum sem Fararheill les að jafnaði kemur á óvart að Wow Air Skúla Mogensen er nú formlega í flokki með hinu tiltölulega ömurlega fyrrum flugfélagi Iceland Express með heilar þrjár stjörnur af tíu mögulegum hjá hinum virta vefmiðli Skytrax.

Með öðrum orðum: feit falleinkunn og það þrátt fyrir að bjóða, oft á tíðum, æði frábær fargjöld hingað og þangað um heiminn. Reyndin er þó sú að þrátt fyrir hræbilleg fargjöld á köflum fær Wow Air aðeins tvær stjörnur af fimm mögulegum fyrir „value for money“ sem útleggst sem peninganna virði að mati viðskiptavina. Billegu fargjöldin ná ekki að loka tjaldinu á þriðja heims þjónustu.

Einhver kann nú að segja að við séum ósanngjörn og leiðinleg fyrir að benda á að Wow Air hefur fallið úr sjö stjörnum í þrjár á aðeins fimm árum eða svo. En eigandinn sjálfur hefur ítrekað talað um að hann sé í samkeppni við helstu lággjaldaflugfélög heims og EKKERT þeirra er á blaði hjá Skytrax með færri en fimm stjörnur. Hið illræmda írska Ryanair, sem er þekkt af endemum fyrir slælega þjónustu, er með sex stjörnur.

Góðu heilli fljúga hingað önnur lággjaldaflugfélög sem bjóða betri þjónustu en hið íslenska flugfélag. Um að gera að sætta sig ekki við flugfélag með falleinkunn. Nema þú finnir söknuð eftir gömlu Kaupfélögunum…