Nálega helmingsmunur er á allra ódýrasta fargjaldi Wow Air til Barcelóna í júní en hjá Icelandair í sama mánuði samkvæmt úttekt Fararheill. Wow Air býður í dag sérstakt tilboðsverð til þessarar Miðjarðarhafsperlu.

Wow auglýsir tilboð til Barcelóna en býður mun lægra verð en það í raun
Wow auglýsir tilboð til Barcelóna en býður mun lægra verð en það í raun

Auglýst lægsta verð, 29.900 krónur, gildir um tilteknar brottfarir Wow Air í júní en einhver þar á bæ er ekki alveg í sambandi því við finnum verð aðra leiðina á 23.800 krónur lægst eða á 54.110 krónur báðar leiðir með tösku undir 20 kílóum og bókunargjaldi inniföldu.

Töskum hentum við með til að fá betri samanburð við verð Icelandair sem einnig býður beint flug til Barcelóna í sumar. Þar er eins og áður heimilt fyrir hvern og einn að taka með 23 kílóa tösku án þess að greiða sérstaklega fyrir. Lægsta verð fram og aftur sem við finnum hjá Icelandair þann mánuðinn kostar 98.740 krónur og munar því talsverðu í verði.

Í báðum tilfellum eru lægstu fargjöld einungis í boði á völdum dagsetningum og önnur fargjöld geta verið töluvert dýrari.

Þó fargjald Wow sé verulega mikið betra en Icelandair býður sömu leiðina í júní er athyglisvert að bera saman allra lægsta tilboðsverð Wow Air nú, 23.800, við annað tilboð félagsins til Barcelóna á tilboði fyrir rétt rúmum mánuði síðan. Þá kostaði far aðra leiðina 18.800 krónur með bókunargjaldi eða tíu þúsund krónum ódýrara báðar leiðir. Það er drjúg hækkun á 30 dögum til sama áfangastaðar.