Skúli Mogensen er flottur. Spikk og span til útlits öllum stundum, einn besti vinur Björgólfs Thors og hefur aldeilis tekist að byggja upp flott flugfélag á skömmum tíma. En hann er líka að okra á þér fram úr hófi.

Norwegian að bjóða okkur töluvert lægra verð til Alicante og heim aftur en Wow Air í vetur.

Því til sönnunar ættu sólelskendur að skoða verðmun á flugi með lággjaldaflugfélaginu Wow Air annars vegar og norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian hins vegar til Alicante og heim aftur til Keflavíkur þennan veturinn.

Við hér hjá Fararheill kíktum að gamni á nokkrar dagsetningar í vetur og bárum saman milli Wow Air og Norwegian.

Hvers vegna Norwegian kannt þú að spyrja. Jú, aðallega vegna þess að Norwegian býður beint flug milli Keflavíkur og Alicante í vetur og það í fyrsta skipti sem erlent flugfélag býður okkur mölbúum slíkan pakka. Vissulega hefur Primera Air einnig flogið þarna á milli og vissulega er Primera skráð í Litháen en við vitum öll að það batterí er íslenskt í raun og rekið af Íslendingum. Þess utan er Primera Air ekki lággjaldaflugfélag því þó þeir státi sig af þeirri nafngift erlendis er fátt „lággjalda“ við fargjöld þeirra héðan.

Í ljós kemur við stikkprufur í nóvember, desember, janúar og febrúar að verðmunur er talsverður Norwegian í hag hvort sem við skoðum eingöngu flug, án alls, eða hvort við kíkjum á flug með 20 kílóa tösku og frátekið sæti um borð. Reyndin er að Wow Air virðist gróflega vera að selja okkur sömu vöruna á 30% til 40% hærra verði en þeir norsku heilt yfir.

Allra versta dæmið má sjá hér til hliðar. Það er flug með Wow Air til Alicante þann 21. desember og heim aftur 4. janúar með tösku og sæti eða svokallað Wow Plús fargjald. Það kostar þegar þetta er skrifað manninn litlar 76 þúsund krónur.

Til samanburðar er í boði að fljúga með Norwegian út þann 20. desember og heim 3. janúar á LowFare+ fargjaldi sem einnig dekkar tösku, sæti og reyndar frítt net um borð líka. Sá norski lætur þó nægja að heimta 270 evrur fyrir sem miðað við gengi dagsins gerir heilar 33 þúsund krónur!!!

Það er hvorki meira né minna en rúmlega 130 prósenta verðmunur sem er aldeilis fráleitur munur hjá tveimur flugfélögum sem bæði kalla sig lággjaldaflugfélög. Wow Air kallar sig að auki flugfélag fólksins en ætti kannski að kalla sig flugfélag ríka fólksins miðað við okrið til Alicante í vetur.

PS: og dettur þér í hug að Wow Air sé að bjóða þér bestu kjörin á gistingu erlendis í framhaldi af þessu…