Þrjátíu og tveir hektarar að stærð, yfir sjö milljónir blóma, 2.500 tré og aðeins opinn í tvo mánuði ár hvert. Þeir eru ekki margir blómagarðarnir sem uppfylla þessa skilgreiningu en það gerir hinn risavaxni Keukenhof blómagarður í Lisse í Hollandi. Þar er stærsta safn heims af blómum sem falla undir samheitið blómlaukar.

Garður þessi, sem unnið hefur til fjölda verðlauna og er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Hollandi öllu, var upphaflega settur á fót af nokkrum blómabændum til að sýna hugsanlegum kaupendum blómaafbrigði sín. Síðan eru liðin 50 ár og hér er pakkað af blómaáhugafólki þá tvo mánuði ár hvert sem Keukenhof er opinn.

Lækir og brunnar eru víða í Keukenhof garðinum til að krydda ævintýrið. Mynd DowianA
Lækir og brunnar eru víða í Keukenhof garðinum til að krydda ævintýrið. Mynd DowianA

Það kann að virðast undarlegt að svo vinsæll garður sé aðeins opinn tvo mánuði ár hvert en ástæðan er einföld. Það er sá tími sem laukarnir í garðinum blómgast.

Með tíð og tíma hefur garðurinn vaxið og nú er þar að finna sex stóra blómaskála kennda við konungborið fólk í Hollandi. Hver og einn skáli hefur sína sérstöðu og er að finna mismunandi tegundir blóma í hverjum og einum. Þá er einn skálinn tileinkaður blómaskreytingum og sýningar taka ört breytingum þann tíma sem opið er.

Þar selja þeir bændur sem að baki standa einnig flestar þær tegundir sem í garðinum má sjá en engum á að koma á óvart að túlípanar eru þar fremstir í flokki. Híasintur, liljur, rósir, krókusar og margar fleiri tegundir er ennfremur þarna að sjá.

Fyrir utan stórkostlega litadýrðina sem jafnvel litblindustu menn missa vatn yfir er garðurinn afar skemmtilega hannaður og til að krydda hann enn meira er þar að finna fjölda skúlptúra, gosbrunna og þarna er ekta hollensk vindmylla á einum stað. Þá er og algengt að kórar og listamenn stígi á stokk og flytji list sína fólki til yndisauka. Að auki er ávallt eitt ákveðið þema á hverju ári sem hlutar garðsins taka mið af.

Skálar Keukenhof eru eftirtaldir:

♥  Beatrix skálinn: Hér er megináherslan á orkídeur og engir aðrir en Orkídeusamband Hollands sem setur sýninguna upp ár hvert.

♥  Júlíönu skálinn: Er árlega tileinkaður þema hvers árs með tilheyrandi blómum og öðrum munum.

♥  Orange Nassau skálinn: Það er hér sem blómaskreytingar taka aðalhlutverk og skreytingmenn keppa sín á milli. Sýningarnar breytast vikulega.

♥  Upplýsingaskálinn: Hér er allar upplýsingar að finna um blómlauka af ýmsum tegundum og saga þeirra skýrð í máli, myndum og blómum.

♥  William Alexander skálinn: Hér er hjarta garðsins ef svo má að orði komast. 80 þúsund túlípanar af 600 tegundum undir einu og sama þakinu.

Opnunartími Keukenhof er aðeins breytilegur milli ára. Þetta árið er hann opinn frá 24. mars til 20. maí en upplýsingar um slíkt má finna á heimasíðu garðsins hér. Opnunartíminn er milli 9 og 18:30 en miðasalan lokar klukkan 18. Miðaverð tekur einnig breytingum en árið 2015 kostaði miðinn 3.200 krónur.

Hingað kemur fólk langt að þann tíma sem garðurinn er opinn árlega. Mynd ELA2007
Hingað kemur fólk langt að þann tíma sem garðurinn er opinn árlega. Mynd ELA2007

Bærinn Lisse, sem garðurinn stendur við, er lítill og fátt að sjá þar. Þangað fara þó rútur og strætisvagnar ef fólk vill fara á eigin spýtum. Frá öllum helstu borgum í kring eru skipulagðar ferðir í boði. Frá Amsterdam svo dæmi sé tekið kostar slík ferð 6.000 krónur. Þá ganga strætisvagnar beint hingað frá Schiphol flugvellinum ef fólk getur ekki beðið.

Garðurinn tekur breytingum hvert einasta ár sem þýðir að upplifunin er aldrei eins. Mynd Miguel V. Martinez
Garðurinn tekur breytingum hvert einasta ár sem þýðir að upplifunin er aldrei eins. Mynd Miguel V. Martinez


Leave a Reply