Það er töluvert vandlifað í henni veröld eins og allt hugsandi fólk yfir fermingaraldri veit og þekkir af eigin raun. Allir þeir sem ekki þekkja það og eru á leið til Barcelóna á næstunni fá mjög líklega að minnsta kosti nasaþef af því.

Ekki spennt fyrir löngum röðum og þúsund árum í flugstöð? Þá er ráð að hinkra með ferðina til Barcelóna

Ólíkt því sem gerist á Íslandinu góða þar sem launþegasamtök á borð við ASÍ gáfust upp um aldamótin og helga sig því nú að félagar fái eina helgi eða svo í flottum sumarbústað á þægilegum stað eru spænsk verkalýðssamtök ekki alveg á þeirri línu. Þar vill svo til að þrátt fyrir skít og kanil um margra ára skeið ætlar ákveðinn hópur fólks í 100% verkfall þar í landi 14. eða 15. ágúst.

Illu heilli fyrir þá Íslendinga sem bókað hafa til Barcelóna á þeim tíma er fólkið sem ætlar í verkfall engir aðrir en starfsfólk hins einkarekna fyrirtækis Eulen. Víst kann enginn haus né sporð á því fyrirtæki en það nægir sennilega að nefna að starfsfólk Eulen sér um toll- og öryggisgæslu og tollafgreiðslu á stærsta flugvelli Katalóníu og öðrum vinsælasta flugvelli Spánar: El Prat í Barcelóna.

Jamm, Spánverjanum nær að einkavæða tollgæslu á vinsælum flugvelli því ekki þarf hátt gáfnafar til að geta sér þess til að fyrr en síðar muni lágt launað staffið segja hingað og ekki lengra. Sem er nákvæmlega það sem starfsfólk Eulen hefur nú hótað. Ótímabundið allsherjarverkfall á El Prat frá 14. eða 15. ágúst. Fram að þeim tíma fyrirvaralaus skyndiverkföll.

Nú kunna Jón Ólafsson á Siglufirði og Guðríður Torfadóttir í Vestmannaeyjum að blóta í sand og ösku enda á leið til Barcelóna þann 15. ágúst til skrafs og dúllerís (þó ekki saman.) Það kolröng túlkun á vandamálinu því bæði Jón og Guðríður eru í lágt launuðum og leiðinlegum störfum og vildu gjarnan fara sjálf í allsherjarverkfall til að fá meira en epli og minnsta kassann af Nóa konfekti í jólagjöf frá fyrirtækjum sínum hvers forstjórar prýða forsíðu Frjálsrar verslunar á fimm mínútna fresti sem súperhetjur fyrir milljarða hagnað til handa hluthöfum.

Slakið því á. Standið með staffinu hjá Eulen jafnvel þó það þýði sex klukkustunda pakka að komast úr vél og út á götu á El Prat. Tímann er til dæmis hægt að nota til að heilsa upp á nýtt og skemmtilegt fólk í röðinni 🙂