Úttekt Fararheill á þeim skíðavalkostum sem í boði eru hjá íslenskum ferðaskrifstofum þennan veturinn leiðir í ljós að með þeim verður vart komist í góðar erlendar brekkur undir 200 þúsund krónum á mann fyrir eina viku. Ritstjórn lék forvitni að vita hvort aðrir og þá ódýrari möguleikar væru fyrir hendi.

Stund milli stríða í brekkunum í Madonna di Campiglio á Ítalíu. Skíðaferðirnar sívinsælar hérlendis en í dýrari kantinum
Stund milli stríða í brekkunum í Madonna di Campiglio á Ítalíu. Skíðaferðirnar sívinsælar hérlendis en í dýrari kantinum

Stóru ferðaskrifstofurnar tvær, Heimsferðir og Úrval Útsýn, bjóða báðar forvitnilegar skíðaferðir næstu mánuðina. Heimsferðir til Austurríkis en Úrval Útsýn til Ítalíu. Vikupakki í báðum tilvikum fæst á einn fullorðinn ódýrast á 140 til 150 þúsund krónur en innifalið í því er aðeins gisting og flug og mögulega morgunverður.

Fyrir utan fæði á þá eftir að kaupa skíðapassa en dagsprísinn á skíðsvæðum á borð við Flachau og Madonna di Campiglio er frá sex til sjö þúsund krónum hver einasti dagur fyrir manninn. Sé því hugmyndin að skíða í heila viku bætist við passakostnaður upp á 30 til 35 þúsund að gefnum afslætti á hvern einstakling. Heldur má ekki gleyma að til að komast alla leið á skíðasvæðin í báðum tilvikum bíður rútuferð í tvo til þrjá tíma að flugi loknu og sama til baka.

Við getum því leitt líkum að því að vikuferð til Flachau eða Madonna di Campiglio kosti einstakling miðað við tvo saman í raun og veru aldrei minna en 200 þúsund krónur að lágmarki með öllu. Það gera 400 þúsund fyrir hjón eða par fyrir viku skíðaferð. Hver dagur í slíkri ferð kostar einstaklinginn því tæpar 30 þúsund krónur.

En eru einhverjir aðrir möguleikar í stöðunni án þess að leggja á sig tómt vesen og vandræði? Sannarlega.

* Öll verð miðast við gengi krónu 7. janúar 2011.

NOREGUR: Fjölda góðra skíðasvæða er að finna í Noregi og þangað er jú tiltölulega stutt að fara. Skoðun leiðir í ljós að með Icelandair, og SAS í einhverjum tilvikum, kemst einstaklingur til og frá Osló fyrir 34 til 38 þúsund krónur í febrúar plús gjald fyrir skíðabúnað ef svo ber undir. Frá Osló er vandræðalaust að taka rútur og eða lest til stórfínna skíðasvæða.

Það er ævintýri að taka lest frá Englandi og þráðbeint á fyrsta flokks skíðastaði í frönsku Ölpunum

Hemsedal er heimsklassa skíðasvæði í þriggja tíma fjarlægð frá Osló. Þar finnast samkvæmt athugun Fararheill ýmis konar tilboð og það með litlum fyrirvara. Upphitaðan einkafjallaskála fyrir fjóra til sex er þar hægt að leigja í heila viku fyrir 120 til 160 þúsund krónur og í stöku tilfellum fylgja með helgarpassar í brekkurnar frítt með. Aðrir ferðaþjónustuaðilar bjóða fríar ferðir til og frá Gardemoen flugvelli í Osló en hefðbundið rútufargjald á milli staðanna kostar um þrjú þúsund krónur aðra leið. Dagspassi kostar þó 7.700 krónur þurfi að greiða hann fullu verði og verðlag almennt í Noregi er hátt.

Engu að síður er þangað komist á ódýrari máta en með íslensku ferðaskrifstofunum. Með hærri gjöldunum greiðir einstaklingur gróflega reiknað 120 þúsund fyrir flug og fjallaskála sem er jú óendanlega skemmtilegri kostur en þröngt hótelherbergi. Parið greiðir því samanlagt 240 þúsund krónur plús 60 til 80 þúsund fyrir skíðapassa fyrir tvo vikuna. Gistikostnað má lækka enn frekar ef fleiri sameinast um fjallakofa. Sá prís er töluvert undir því ódýrasta sem Heimsferðir og Úrval Útsýn bjóða og um beint flug er að ræða. Hver og einn getur samkvæmt þessu etið og drukkið í ferðinni fyrir hundrað þúsund krónur og komið á sléttu miðað við lægstu fargjöld ferðaskrifstofanna.

FRAKKLAND: Annar kostur sem væntanlega fáir vita af er að fljúga til London þangað sem komist er með smá fyrirvara fyrir 30 til 45 þúsund með flugi á mann og láta skutla sér á St.Pancreas eða Ashford lestarstöðvarnar. Þaðan er hægt að taka hina íðilþægilegu Eurostar lest þráðbeint á frábær skíðasvæði í frönsku Ölpunum. Fram og til baka kostar lestarferðin 27 þúsund krónur en í boði eru ferðir til þriggja mismunandi áfangastaða í frönsku Ölpunum. Moûtiers, Aime-la-Plagne og Bourg-St-Maurice en alls eru sex heimsklassa skíðasvæði á þessum stöðum.

Sem dæmi má gista í lúxus í Le Coeur d´Or í fjallabænum Bourg-St-Maurice í heila viku frá 140 þúsund krónum í febrúar. Sé tveir um hituna kostar gisting á mann 70 þúsund og samanlagt kostar slík ferð því gróflega 135 til 155 þúsund krónur á mann eða svipað og allra ódýrustu tilboð Heimsferða og Úrval Útsýn. Er þó vel hægt að finna ódýrari gististað en þetta ágæta gistihús. Er þó um klassa ferðalag að ræða og fimm stjörnu gistingu en ekki þeirri ódýrustu eins og ferðaskrifstofurnar bjóða.

NIÐURSTAÐA: Góð skíðasvæði er víða að finna en vandamálið er að til að komast til þeirra flestra þarf að taka tengiflug eða aka mun lengri vegalengdir en gott þykir. Þar er nógu mikið basl að þvælast milli flugvalla þó ekki sé níðþungur skíðabúnaður meðferðis og því lætur ritstjórn nægja að tiltaka þessa tvo möguleika enda ekkert slíkt vesen í þessum tilvikum.

Ekki er verið að gera lítið úr þeim stöðum sem Úrval Útsýn og Heimsferðir bjóða upp á í þessum tilfellum en eingöngu verið að benda á að með útsjónarsemi og fyrirhyggju er hægt að komast lönd og strönd án þess að reiða sig á íslenskar ferðaskrifstofur. Og það ódýrar í þokkabót.

Sjá nánar:

Bestu byrjendaskíðasvæðin

Bestu gönguskíðasvæðin

Ódýrir skíðaáfangastaðir