Fyrir skömmu fengum við fyrirspurn frá fólki sem keypt hafði siglingu um Miðjarðarhafið á eigin spýtur en nokkrum dögum áður en að siglingunni kom fengu þau fyrirspurn frá skipafélaginu hvort þau hefðu áhuga á svokölluðu „move-over.“

Það kemur reglulega fyrir að skipafélög yfirbóka ferðir með skemmtiferðaskipum sínum.
Það kemur reglulega fyrir að skipafélög yfirbóka ferðir með skemmtiferðaskipum sínum.

Líklega þekkja ekki margir þetta vandamál hér heima enda oftar en ekki siglingar keyptar gegnum ferðaskrifstofur og slíkir aðilar fá engar fyrirspurnir frá skipafélögum ef sigling reynist yfirbókuð.

Move-over þýðir aðeins að skipið er yfirbókað og einhver verður að víkja en einhverjir ættu að þekkja þetta úr flugheimum. Það er sem sagt búið að selja of mörg sæti/káetur um borð og eitthvað verður undan að láta.

Ólíkt flugfélögum hafa skipafélögin meiri viðbragðstíma og geta því prófað að bjóða stöku farþegum sérstök kjör gegn því að hætta við fyrirhugaða ferð með nokkrum fyrirvara. Í ofangreindu tilviki bauðst hjónunum að sigla á ný með skipafélaginu síðar á árinu sömu leið en í mun betri káetu án þess að greiða neitt aukalega fyrir það.

Það er auðvitað flókið mál þegar fljúga þarf frá Íslandi til að komast um borð í flestar ferjur og skemmtiferðaskip og þar sem engin peningagreiðsla, fyrir utan hreina endurgreiðslu, var í boði var eðlilegt að hafna boðinu. Sem hjónin gerðu enda kostnaðurinn við flugið svipaður eða jafnvel hærri en betri káeta í annarri ferð skipafélagsins. Í slíkum tilfellum prófar skipafélagið að bjóða öðrum farþegum sams konar díl.

Slíkt verður þó að skoða með mismunandi gleraugum í hvert sinn. Stundum eru boðin betri en hér um ræðir og stundum verri. Réttur fólks er þó mjög sterkur hvað siglingar varðar hér Evrópumegin eins og flug eins og lesa má um hér.