Aldeilis makalaust! Við hér á ritstjórn Fararheill lærðum á klukku í leikskóla á sínum tíma. En svo virðist sem stjórnendur Icelandair, með sín milljónalaun í hverjum mánuði, kunni ekki enn á klukku.

Því má næstum slá föstu að vélar Icelandair eru ALDREI á réttum tíma.

Það er ekki að ástæðulausu sem stundvísi er talin vera dyggð hin mesta. Stundvísi þýðir að viðkomandi sýnir virðingu hverjum þeim er hann á að hitta á fyrirfram ákveðnum tíma. Hann eða hún, með öðrum orðum, ber virðingu fyrir tíma viðmælanda síns.

Flugfélagið Icelandair hins vegar getur ekki fyrir nokkurn mun verið á réttum tíma þó fyrirtækinu sé beinlínis borgað fyrir. Enn ein ástæða til að henda forstjóra Icelandair Group á haugana. Hann ræður ekki við nokkurn skapaðan hlut eins og meðfylgjandi skjáskot frá 9. júní bera með sér. Ekki halda eitt augnablik að þessi dagur sé einsdæmi. Þvert á móti er haldið partí í flugturninum í Keflavík í hvert sinn sem vél Icelandair fer í loftið á réttum tíma.

Óþarfi að taka fram að partí þar eru fátíð.

Nú kann vel að vera að þú, lesandi góður, fílir fátt annað en hafa góðan tíma í Leifsstöð til að hella þig fullan fyrir fríið en það er fólk þarna úti sem brúkar Icelandair sem fyrsta flug af nokkrum út í heim og því skipta mínútur, svo ekki sé talað um klukkustundir, töluverðu máli. Eða hversu lengi fengi kennari að halda starfi sínu sem hæfi kennslu 08:12 eða 08:19 þegar tíminn hefst á slaginu átta?