Köll eftir að umferð fjallgöngugarpi upp hið magnaða fjall Mont Blanc verði takmörkuð með einum eða öðrum hætti hafa verið hávær í allt sumar í Frakklandi en sífellt fleiri dæmi eru um fólk sem reynir uppgöngu án þess að vera á nokkurn hátt reiðubúið.

Þó ótrúlegt megi virðast telja margir að ganga á topp Mont Blanc sé bara hressandi skemmtitúr. Svo er þó alls ekki. Mynd Tom Fahy
Þó ótrúlegt megi virðast telja margir að ganga á topp Mont Blanc sé bara hressandi skemmtitúr. Svo er þó alls ekki. Mynd Tom Fahy

Níu einstaklingar hafa fallið til dauða í fjallinu það sem af er sumri en háannatíminn á Mont Blanc er í júlí ár hvert. Þess utan hafa björgunarsveitir þurft að hafa afskipti af 160 manns til viðbótar sem þurftu aðstoð við að komast af fjallinu. Það er töluvert hærra hlutfall en í meðalári en bjarga þarf um hundrað einstaklingum hvert sumar að meðaltali.

Steininn tók úr seint í júlí þegar bandarískur faðir tók tvö börn sín, ellefu og níu ára, með upp fjallið og var hugmyndin að setja með því met. Fjölskyldan komst þó ekki langt áður en þau lentu í lítilsháttar snjóflóði sem varð þeim næstum að aldurstila. Þurfti að bjarga fólkinu eftir hrakningarnar.

Viku fyrir það atvik komst í fréttirnar þegar pólskur göngugarpur krafðist þess að fá björgun úr hlíðum fjallsins vegna þess að hann nennti ekki að fara niður aftur.