Heimamenn kalla þetta Verslunarnóttina, Barcelona Shopping Night, sem vitaskuld er hugsuð til að fá kaupglaða til að eyða fleiri seðlum í búðum en annars væri raunin. En það er samt skrambi viðburðarríkur atburður.

Verslun vel framyfir miðnætti á Verslunarnótt í Barcelona. Mynd Generalitat de Catalunya
Verslun vel framyfir miðnætti á Verslunarnótt í Barcelona. Mynd Generalitat de Catalunya

Síðustu árin hefur Verslunarnóttin farið fram fyrsta fimmtudag í hverjum desembermánuði og einskorðast að mestu við verslanir í Passeig de Gràcia sem eru að jafnaði dýrustu verslanir borgarinnar.

Götunni atarna er þá gjarnan lokað að hluta til þegar kvölda tekur og í einni svipan settir upp sölubásar og sýningapallar í staðinn. Þar seldur varningur beint af kúnni meðan fagurlimaðar fyrirsætur sýna það heitasta og nýjasta í tískuheiminum. Endrum og sinnum spássera frægari fatahönnuðir Spánar hér um líka og gefa ráð hverjum sem vill.

Auðvitað er gestum boðið upp á smárétti og jafnvel hressingu í fljótandi formi á meðan húllumhæinu stendur og oftar en ekki nett áfengt.

Þá er ekki dapurt að allar verslanir hér eru opnar fram til eitt eftir miðnætti og sumar jafnvel lengur ef traffík er mikil. Vart þarf að nefna að ýmis tilboð og afslættir eru á vörum í velflestum verslunum og einskorðast ekki við fatnað.

Hreint ekki afleitur staður til að eyða kvöldstund jafnvel þó ekki fari fótur inni í neina verslun hér.