Það segir allt sem segja þarf um lággjaldaflugfélagið Wizz Air að um borð í hverju flugi eru þykkir bunkar af eyðublöðum sem kveða á um að farþegar sem ekki láta allt yfir sig vaða standa uppi réttindalausir þegar eitthvað bjátar á.

Almennt góð fargjöld Wizz Air hingað og þangað en maður minn hvað flugfélagið reynir að svindla og svína.

Velflestir sennilega lesið nokkrar greinar mbl þess efnis að flugþjónar Wizz Air á leið frá Kraká til Keflavíkur beittu farþega miklum þrýstingi að skrifa undir marklaust plagg þar sem flugfélagið var fríað frá öllum hugsanlegum kröfum þegar rellurnar þurftu að lenda á Egilsstöðum en ekki í Keflavík vegna veðurs.

„Farþegum var al­gjör­lega stillt upp við vegg. Þú þurft­ir annað hvort að setj­ast niður og fara aft­ur til Kra­kár eða skrifa und­ir plaggið þar sem þú af­sal­ar þér þínum rétt­ind­um,“

Illu heilli eru Íslendingar sem og Pólverjar illa að sér hvað réttindi snertir. EKKERT flugfélag getur vikið sér undan skyldum sínum með einhverjum hótunarblöðum þegar allt fer á versta veg. Þeir hinir sömu og þorðu ekki frá borði á Egilsstöðum eyddu næstu fjórum stundum í ferðalag aftur til Kraká með von í brjósti að komast aftur til Íslands næstu daga á eftir.

Þeir fáu sem virtu hótanir Wizz Air að vettugi, fóru út á Egilsstöðum og redduðu sér heimleiðis með einhverju móti eiga inni feita kröfu á ungverska flugfélagið. Kröfu sem fæst greidd fyrr en síðar ef Wizz Air vill halda áfram að fljúga á evrópsku flugstjórnarsvæði. Það er nefninlega svo að ef fyrirtæki virðir ekki Evrópureglur fær það rauða spjaldið og fyrirtækið kapútt á nóinu.

Að flugfélagið geymi kynstrin öll af samningum í öllum sínum rellum sem farþegar skulu skrifa undir þegar eitthvað fer ekki eftir áætlun kemur ekki á óvart hjá ungversku flugfélagi í eigu bandarískra auðkýfinga. Hjá Wizz kostar allt peninga og engin miskunn gefin. Við vitum af einum sem gleymdi að tékka sig inn fyrirfram á netinu frá Osló með Wizz Air og átta þúsund króna fyrirframgreitt fargjaldið hækkaði um leið í sautján þúsund krónur. Flugið sjálft kostaði minna en að greiða fyrir innritun í flugstöðinni með tveggja stunda fyrirvara.

Næst þegar flugferð Wizz Air stenst ekki áætlun einhverra hluta vegna er þjóðráð að gefa flugþjónum löngutöng ef þeir fara fram á að þú gefir rétt þinn á bátinn sísona. Hótanir hvers kyns eru hjóm eitt sem standast ekki augnablik fyrir rétti.

Enn ein ástæðan til að versla heldur við Norwegian sem okkur vitandi hefur aldrei beitt slíkum mafíósabrögðum til að sleppa við skyldur sínar. Nú þegar Wow Air er farið veg veraldar og easyJet fækkað flugferðum er um að gera að reyna að bjarga Norwegian frá gjaldþroti. Ef það fyrirtæki fer líka á hausinn sitjum við hér uppi með Icelandair, SAS og önnur slík sem heimta þrefalt meira fyrir sama pakkann.