Allnokkur skeyti bárust ritstjórn í gærkvöldi þar sem okkur var blótað í sand og ösku því vefurinn okkar væri „alltaf“ niðri. Það gerðist í gærkvöldi, fjórða kvöldið í röð, að álagið á vefinn okkar reyndist meira en við gerðum ráð fyrir.

Biðlund er súr og þreytt en ávöxturinn er sætari en sykur 🙂

Auðvitað er kannski fullmikið af því góða að senda okkur skítapillur þó vefurinn okkar sé lítill og nettur og þoli aðeins takmarkað álag. Eða hversu margir aðrir þarna úti eru að skrifa til að vernda þinn neytendahag í ferðum og ferðalögum. Ekki hundruð milljóna króna Neytendastofa. Ekki hundruð milljóna króna Ísavía. Enginn með öðrum orðum. Nema við 😉

Að því sögðu biðjumst við forláts. Það kostar drjúga fjármuni að hýsa og halda úti stórum vef á borð við Fararheill með rúmlega sjö þúsund greinar og tæplega tvö hundruð vegvísa og svo framvegis og svo framvegis. Þess vegna setjum við takmörk á hversu margir geta skoðað vefinn okkar á sama tíma. Fari fjöldinn yfir 70 aðila á sama tíma lokast Fararheill sjálfkrafa og dettur út þangað til fjöldinn dettur niður.

Vitaskuld er ástæða til að endurskoða þetta þegar aðsókn fer vel yfir þessi mörk ítrekað nokkur kvöld í röð. Að því erum við að vinna en það kostar stóra seðla. Stærri seðla en við fáum frá okkar einu tekjulind í dag svo einhver bið verður á því.

Þangað til það gerist er trixið að hinkra í svona 15 til 20 mínútur. Að þeim tíma liðnum ætti Fararheill að opnast á skjánum á nýjan leik vandræðalaust 🙂