Þrjátíu þúsund króna verðmunur er á ferð héðan fyrir tvo á leik Liverpool og Aston Villa seinni hluta septembermánaðar.

Ekki alveg sama hvar þú kaupir fótboltaferðirnar í vetur. Samsett mynd
Ekki alveg sama hvar þú kaupir fótboltaferðirnar í vetur. Samsett mynd

Tveir aðilar bjóða ferðir á þann leik, Vita ferðir og Gaman ferðir, og reynist ferð Vita 30 þúsund krónum dýrari en Gaman ferðin. Þó er um nánast nákvæmlega sama pakka að ræða: flug, þriggja stjörnu gisting í þrjár nætur og miða á leikinn atarna. Ferðin kostar tvo 249 þúsund krónur hjá Vita en 219 þúsund hjá Gaman.

Reyndar er stór galli á mörgum fótboltaferðum Gaman ferða til Liverpool eða Manchester að flogið er til London en ekki beint á áfangastað nema í undantekningartilfellum. Það þýðir að kaupandi þarf að drösla sér að flugi loknu í næstu lest í London og rúlla með henni í tvær stundir til Liverpool eða Manchester.

Aðeins skárra hjá Vita sem sendir sína viðskiptavini með Icelandair sem flýgur beint til Manchester en klukkustund tekur að fara á milli borganna. Gaman ferðir bjóða líka stöku ferðir til Manchester en líka með Icelandair.

Úttekt Fararheill leiðir þó í ljós að spara má duglega með því að skipuleggja slíka ferð sjálf. Í ofangreindu dæmi, Liverpool gegn Aston Villa þann 26. september. kemst fólk með flugi með Icelandair fyrir 94 þúsund krónur fyrir tvo fram og aftur. Á hótelvef Fararheill fæst gisting á Jurys Inn, sama hótel og Vita býður, dagana 25. til 28. september fyrir rúmar 59 þúsund krónur og miðar á leikinn fást alla jafna fyrir tíu þúsund krónur á mann eða tuttugu þúsund samtals. Með þessum hætti nýtur fólk leiksins og dvalar í Liverpool kringum 175 þúsund krónur plús klink til eða frá. Það er tæplega 50 þúsund krónum lægra verð en Gaman ferðir bjóða og tæplega 80 þúsund krónum lægra en Vita býður. Það er ekki lítill verðmunur á einni helgar og fótboltaferð og ofangreint dæmi er ekki einsdæmi.