Flestu vitibornu fólki ætti nú að vera orðið ljóst að Nói gamli hefði aldrei getað troðið dýrum heims í Örkina sína á sínum tíma. En standi vilji til að láta sannarlega reyna á það er það hægt.

Aldrei áður hefur verið hægt að berja Örkina hans Nóa augum en það er í boði nú. Mynd newdip
Aldrei áður hefur verið hægt að berja Örkina hans Nóa augum en það er í boði nú. Mynd newdip

Byggð hefur verið það sem sagt er nákvæm eftirlíking af Örkinni frægu og það í litlu plássi í Hollandi. Þar hefur trúgjarn einstaklingur eytt tuttugu árum ævi sinnar að smíða eftirlíkingu af Örk biblíunnar með þeirra tíma verkfærum að mestu og nú geta menn og mýs skoðað herlegheitin.

Við smíðina fylgdi smiðurinn nákvæmlega leiðbeiningum hinnar helgu bókar og niðurstaðan er 130 metra löng, 29 metra breið og 20 metra há Örk.

Líklegt má telja að ferðamannafjöldi til Dordrecht í Hollandi aukist mjög nú þegar Örkin trekkir að en þess utan hefur borgin ýmislegt til síns ágætis. Ekki síst þá staðreynd að þetta er elsta borg Hollands.

Þá er þetta sennilega besti staður heims til að byggja Örk því stór hluti Hollands liggur undir sjávarmáli og hafi vísindamenn rétt fyrir sér mun flæða yfir Holland fyrr en síðar haldi hlýnun jarðar áfram eins og verið hefur. Þá getur komið sér vel að eiga eina Örk eða svo.

Best er að hafa eins og 1.600 krónur í vasanum því ekki er ókeypis að rúnta aðeins um skipið. Það er þó þess virði enda smíðin stórmerkileg.