Þau okkar sem kjósa helst að flakka um aðeins meira framandi staði en Tenerife eða Flórída er stundum sá vandi á höndum að fá ekki 100% nákvæmar upplýsingar um hvort við þurfum áritun eða eitthvað annað formlegt plagg til að fá inngöngu inn í þetta landið og hitt. Ein lausn er að heimsækja vef IATA.

Oft þurfa Íslendingar engar sérstakar vegabréfsáritanir fyrir hin og þessi löndin jafnvel þó það liggi ekki ljóst fyrir á vef utanríkisráðuneytisins.

Vægast sagt djöfullegt að þrælast gegnum áritunarvef utanríkisráðuneytisins íslenska. Önnur hver færsla þar veitir engar vísbendingar um eitt né neitt sé hugmyndin að heimsækja lönd sem ekki er til „gagnkvæmur samningur“ við af hálfu þess ráðuneytis. Þá bara bent á hitt eða þetta sendiráðið í öðrum löndum; ferli sem getur tekið mánuði að gera og græja í sumum tilfellum.

Skýrt dæmi um þessa leti starfsmanna utanríkisráðuneytisins má finna í kaflanum um Kúbu svo eitt dæmi sé tekið. Þar segir:

Ekki er gagnkvæmur samningur við ríkið og því þarf alltaf að leita til viðkomandi stjórnvalds til að fá réttar upplýsingar um það hvort áritun þurfi og hvort hún sé þá möguleg við komu. Til hvaða erlends aðila á að leita? Sendiráðs Kúbu í Stokkhólmi Athugið vel: Ef gagnkvæmur samningur er ekki á milli Íslands og viðkomandi ríkis verða ferðamenn að fá upplýsingarnar staðfestar hjá viðkomandi erlendu sendiráði, ræðisskrifstofu eða öðrum opinberum aðila þess ríkis sem ferðast skal til. Upplýsingar þessar geta breyst án þess að utanríkisráðuneytinu sé um það tilkynnt. Því er ferðamönnum eindregið ráðlagt í þeim tilvikum þar sem ekki er gagnkvæmur samningur í gildi að fá þær upplýsingar er hér greinir staðfestar.“

Með öðrum orðum: mikið kjaftæði um lítið.

Einhver hefði til dæmis haldið að ráðuneytið benti á að Íslendingar hafa ferðast til og frá Kúbu um áraraðir gegnum bæði Evrópu og Kanada, og á köflum gegnum Bandaríkin, með svokölluðu túristavísa sem stjórnvöld á Kúbu gera kröfu um. Það túristavísa fæst nánast undantekningarlítið gegnum það flugfélag eða ferðaskrifstofu sem þú ferðast með til eyjunnar og það oft á tíðum ókeypis eða innifalið í fargjaldinu.

Víst kann að vera að þetta gildi ekki um alla Íslendinga sem þvælast til Kúbu og það sé ástæða þess að ráðuneytið telur ekki ástæðu til að birta slíkar upplýsingar. En sjálfsagður hlutur að hafa þetta með þó ekki sé nema innan sviga.

IATA er skammstöfun á Alþjóðasamtökum flugfélaga þessa heims og í félaginu vel yfir 90 prósent löggildra flugfélaga heimsins. Gegnum vef þeirra samtaka má til dæmis sjá að EKKI er nauðsyn á sérstöku vísa til Kúbu öðru en fyrrnefndu túristakorti og auðvitað gildu vegabréfi sem ekki er að renna út alveg á næstu vikum.

Kúba alls ekki eina landið þar sem upplýsingar eru fráleitt fullnægjandi á vef utanríkisráðuneytisins. Því ráð fyrir þá sem ekki eru alveg vissir að skoða hvað IATA hefur um málið að segja 😉