Faux pas heitir það á frönsku þegar ferðafólk móðgar gestgjafa sinn á einhvern hátt í veröldinni. Gallinn sá að misjafn siður er í hverju landi og nánast ómögulegt að vita fyrirfram hvað þykir miður og hvað ekki.

Í fjölmörgum löndum er það hámark ókurteisinnar að sýna skósóla eða iljar.
Í fjölmörgum löndum er það hámark ókurteisinnar að sýna skósóla eða iljar.

Fjölmargar sögur eru til af einföldustu hlutum, að því er okkur finnst, sem fara afar illa niður í fólk í fjarlægum heimsálfum og stundum er móðgunin það alvarleg að það jaðrar við lög.

Seint verður hægt að útbúa tæmandi lista yfir það sem má og ekki má í hverju landi fyrir sig en Fararheill.is hefur tekið nokkur dæmi saman sem bæði eru fræðandi en einnig nokkuð skondin fyrir þá sem öðru eru vanir.

♥  Í Ástralíu er vænlegast að setjast í framsætið á leigubílum því annars ertu að móðga bílstjórann verulega. Skýrist það af arfleifð Ástrala sem bresk fanganýlenda og með því að setjast aftur í eins og venjan er á Íslandi ertu að gefa í skyn að bílstjórinn sé þér óæðri.

♥  Í íslömskum löndum máttu aldrei nokkurn tíma sýna öðrum skósóla þinn því það er grófasta móðgun. Í Íslam er ilin það aumingjalegasta á líkama nokkurs manns og að sýna hana, jafnvel þótt þú sért aðeins að krossleggja fæturna, þykir hræðileg hneisa.

♥  Þú mátt eiga von á augngotum og jafnvel hnussi frá nálægum borðum ef þú notar vinstri höndina til að borða með í Indlandi. Skýringin sú að þar sem innlendir borða með fingrunum nota þeir hægri höndina til þess og þá vinstri í allt annað eins og að skeina sér.

♥  Ókei merkið er langt í frá ókei víða í heiminum. Með því að mynda hring með þumlinum og löngutöng til að gefa til kynna ánægju með eitthvað ertu oftar en ekki að gefa allt annað til kynna. Í Brasilíu ertu að lýsa því yfir að viðkomandi sé hommi eða lesbía. Í Kína stendur táknið fyrir rassgat og jafnvel í Frakklandi gefur OK merkið til kynna að eitthvað sé athugavert.

♥  Annað vinsælt vestrænt merki, þumall upp, er ekki alveg að gera sig á sumum stöðum. Hvort sem þú ert að gefa í skyn ánægju eða að húkka bílfar þýðir þetta merki að þú lýsir frati á viðkomandi ef ferðalangurinn er staddur í Nígeríu.

♥  Það er algjör ókurteisi að líta ekki í augun á hverjum sem situr við borðið þegar skálað er í Tékklandi en aðeins sunnar í Evrópu, í Rúmeníu, skála menn alls ekki. Þar er skálin tákn um einræðisherra og tímabil sem allir vilja gleyma.