Fátt er jafnleiðinlegt og þurfa að eyða klukkustundum saman í bið á flugvöllum eftir tengiflugi en það getur stundum verið óumflýjanlegt.

Tóm leiðindi eru því fylgjandi að bíða klukkustundum saman á Gatwick flugvelli. Nær lagi að bregða sér til nágrannabæjarins Crawley. Mynd neilalderley123
Tóm leiðindi eru því fylgjandi að bíða klukkustundum saman á Gatwick flugvelli. Nær lagi að bregða sér til nágrannabæjarins Crawley. Mynd neilalderley123

Fáir flugvellir eru jafn leiðinlegir og Gatwick í Englandi þegar kemur að biðfarþegum. Aðstaða er engin hvorki til að setjast niður eða hvíla lúin bein útifyrir eins og raunin er til dæmis á Stansted flugvelli.

Margir gera þau mistök að eyða biðtímanum í London en frá Gatwick tekur 30 mínútur að fara með lest að Viktoríu stöð og spóka sig aðeins um í höfuðborginni. Það er hins vegar æði kjánalegt því ekki aðeins er túrinn langur og ferðin dýr heldur er afar takmarkað hægt að njóta London á klukkustund eða tveimur. Rétt kominn kaffibolli í hönd áður en þörf er á að drífa sig til baka.

Aðra sögu er að segja af bænum Crawley sem er næsti bær við Gatwick flugvöll. Hann er enginn nafli alheims og enginn fær hann fegurðarverðlaun. En hann er þægilega lítill til að þar sé hægt að eyða þremur til fjórum stundum eða svo án þess að leiðast um of og án þess að eyða formúgu í lest og rauðvínsglas í London.

Reyndar er Crawley ekkert sérstaklega auglýstur frá flugvellinum og dálítið ævintýri að komast þangað líka. Fara þarf út um neyðarútgang á Gatwick til að finna strætóstöð þar sem vagn 10 stoppar á 12 mínútna fresti á virkum dögum og hálftíma fresti um helgar. En þótt það hljómi óspennandi tekur strætóferðin aðeins tíu mínútur inn í miðbæ Crawley og þar eru bæði pöbbar, verslanir og markaður sem eru töluvert ódýrari en það sem gerist í höfuðborginni London.

Sem dæmi fæst varla full bjórkanna í grennd við Viktoríustöð undir þúsund krónum en á börum í Crawley kostar bjórinn millli fimm og sex hundruð krónur.

Það er því hægt að spara skilding og slaka mun betur á með túr til Crawley í stað London jafnvel þó upplifunin verði minni. Strætómiðinn kostar 350 krónur í stað þess að punga út 5.400 krónum báðar leiðir til og frá London með Gatwick Express. Þá er ekki óyfirstíganlegt að taka farangurinn með til Crawley í stað þess að setja í geymslu á flugvellinum sem einnig kostar feitan pening.

Og er ekki hugmyndin með flestum ferðalögum að slaka á 🙂