Það er óneitanlega dálítið grátlegt fyrir Íslendinginn að heyra ferðamenn í Feneyjum kvarta undan dýrtíð í borginni. Því þótt stöku gjaldmiðlar hafi fallið örlítið milli ára er enginn að berjast við tvöföldun alls kostnaðar eins og Íslendingar eftir Hrunið 2008 þó það hafi nú góðu heilli að mestu gengið til baka.

Siglt um síki Feneyjar og það á margfalt lægra verði en með gondólum. Mynd Avital Pinnick
Siglt um síki Feneyjar og það á margfalt lægra verði en með gondólum. Mynd Avital Pinnick

Enginn skal efast um að Feneyjar eru orðnar rándýrar fyrir íslenska buddu og nægir þar að nefna hina frægu gondóla til sögunnar. Hálftíma túr með einum slíkum á annatíma kostar um og yfir 120 evrur þessi dægrin eða rúmar 16 þúsund krónur fyrir krónuvíkinga frá Íslandi. Auðvitað er kostnaði oftast deilt en mest sex í einu geta leigt sér gondóla og koma þá 20 evrur í hlut hvers og eins. Sem er ekki gefins. Utan annatíma kostar 40 mínútna túr 80 evrur eða tæplega tíu þúsund kallinn.

Það er því ráð að sleppa gondólum sért þú á ferð um Feneyjar með tómlega vasa. Reyna heldur að upplifa sams konar tilfinningu með vaporettos. Það stærri bátar sem flytja fleiri í einu en gondólar en fara eðlilega aðeins helstu leiðir og enginn er söngelskur gondólaræðari með í för. Með þeim er þó hægt að sjá flest það markverðasta í Feneyjum og samt upplifa snert af gondólastemmningu án þess að punga út árslaunum fyrir.

Vaporettos er í raun samheiti yfir þrjár tegundir báta; vaporetto fara eingöngu um meginæðina Grand Canal, motoscafo eru bátar sömu stærðar sem fara út á Feneyjalónið og motonave are stærri bátar sem notaðir eru til fólksflutninga frá Feneyjum til nágrannabæja.

En þó vaporettos séu öllu hagkvæmari kostur en gondólarnir kostar farið engu að síður 1.200 krónur. Gildir stakur miði, bigliotto di corsa semplice,  í 60 mínútur sem gerir þér kleift að hoppa út og í á þeim tíma en þó aldrei til baka.

Betri kaup er í 12 tíma eða 24 tíma miðum sem gilda í þann tíma frá fyrstu notkun. Sá fyrrnefndi, biglietto dodici ori, kostar 3000 krónur en á þeim tíma er hægt að sjá flest markvert sem á annað borð er hægt að sjá úr báti þessari meginæð borgarinnar.

Allt frekar um miðakaup og leiðakerfið hér.

Til umhugsunar: Grand Canal er enska orðið yfir meginsiglingaræðina í borginni. Heimamenn sjálfir kalla hana Canalasso en Ítalir aðrir Canal Grande. Miðar eru seldir víða og einnig um borð hjá skipstjóranum en hafið í huga að tímaáætlanir eru oftar en ekki tómt rugl. Bæði helgast tíminn af umferð á síkinu hverju sinni en áætlanir breytast einnig ört eftir árstímum. Er því best að hafa augun opin í stað þess að reiða sig á áætlun bátanna. Þá er og mikilvægt að stimpla alla miða um leið og um borð er komið í þartilgerðri vél því ellegar eiga ferðamenn á hættu að fá sekt.