Æ hvað græðgi og okur hvers kyns er leiðinlegur blettur á fólki og fyrirtækjum. Til að mynda hjá ferðaskrifstofu svindlarans Pálma Haraldssonar.

Sama flug, sama gisting en Úrval Útsýn vill töluvert fleiri seðla fyrir viðvikið.

Það er okkur hér hjá Fararheill hulin ráðgáta hvers vegna Úrval Útsýn er starfandi fyrirtæki þrátt fyrir að eigandinn sé aftur og ítrekað sekur um svindl og svínarí. Fool me once og það allt…

Ekki síður undarlegt sökum þess að Fararheill hefur um áraraðir bent á að Úrval Útsýn er að heimta töluvert fleiri seðla fyrir svipaða vöru og samkeppnisaðilar og það aftur og ítrekað.

Enn eitt dæmið um slíkt má finna á vef ÚÚ þessa stundina. Ferðaskrifstofan er að bjóða fólki vikulanga Kúbuferð í febrúar. Hið besta mál enda hafa margir innlendingar tekið ástfóstri við þessa indælu eyju og eyjaskeggja. Verra þó að ÚÚ er hér að bjóða nákvæmlega sömu ferð og ferðaskrifstofan Vita og í tilfellum nákvæmlega sömu gistingu líka. Nema verðið hjá ÚÚ er 10 til 20 prósentum hærra en hjá Vita fyrir sömu vöruna.

Við bárum saman að gamni verð á ferðum Vita annars vegar og Úrval Útsýn hins vegar. Niðurstaðan ætti að vera þokkalega á pari ef allt væri eðlilegt sökum þess að báðar ferðaskrifstofur fljúga farþegum með sömu vél og bjóða mikið til sömu gistingu og skoðunarferðir. Það er með öðrum orðum lítill sem enginn munur á ferðunum.

En viti menn! Þrjár stikkprufur leiða í ljós að Úrval Útsýn er að heimta þetta 10 til 17 prósent hærra verð fyrir pakkann en Vita. Fer þó Vita aldrei nokkurn tíma í bækur fyrir lágt verðlag svo því sé haldið til haga.

Kíkjum á dæmin:

A) Flug plús vikulöng gisting í Varadero á Ibero Varadero hótelinu með öllu inniföldu. Vita býður þennan pakka per haus fyrir 279.900 krónur eða 559.800 krónur á par eða hjón. Sami pakki hjá Úrval Útsýn? Jú, 319.900 krónur á kjaft eða 639.800 á par eða hjón. Það verðmunur upp á rúm 14 prósent.

B) Flug plús vikulöng gisting á Hotel Capri í Havana með morgunverði kostar manninn 285.500 krónur hjá Vita eða 571.000 krónur fyrir parið. Sami pakki gegnum Úrval Útsýn kostar 335.900 krónur á hvern mann og því 671.800 krónur fyrir tvo saman. Það verðmunur upp á lítil 18 prósent gott fólk.

C) Flug plús fjórar nætur á Parque Central í Havana plús þrjár nætur á Iberostar Varadero. Báðir pakkar nákvæmlega eins hjá báðum aðilum. Kostnaður við pakkann hjá Vita reynist vera 317.900 krónur á haus eða 635.800 fyrir hjónakorn. Víkur þá sögu yfir til Úrval Útsýn sem býður nákvæmlega sama hræringinn en nú þarf einstaklingur að greiða 349.900 krónur og hjónin því samtals 699.800 krónur.

Nú gætum við hér vel bent á þá merkilegu staðreynd að vikulangar Kúbuferðir frá Englandi, Spáni eða Þýskalandi fást allan ársins hring undir 200 þúsund krónum á haus miðað við tvo saman og jafnvel þá gist á fyrirtaks stöðum. Við látum það þó liggja milli hluta að sinni. En það er þó eitthvað alvarlega galið við að Íslendingar, sem eru nær Kúbu en aðrir íbúar Evrópu þurfi ennþá árið 2018 að punga út 30 til 40 prósent hærri upphæð fyrir Kúbuferð en ferðaelskendur annars staðar frá.

Góða ferð þó ef þú ert áhugasöm/-samur. Þú sérð ekkert eftir túr um Kúbu 🙂