Seint í dag barst okkur skeyti frá Úrval Útsýn þar sem því var komið á framfæri að fjögur sæti í vikulangri jólaskíðaferð til Zell am See í Austurríki væru nú til sölu vegna forfalla. Ekki dettur ferðaskrifstofunni í hug að lækka verðið um eina krónu þó brottför sé síðar í þessari viku og ferðin atarna afar dýr.

Fín jólaferð til Zell am See en ekki króna slegin af.
Fín jólaferð til Zell am See en ekki króna slegin af.

Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem við skrifum um svona lagað og segir að okkar mati allt sem segja þarf um þjónustulund ferðaskrifstofa hérlendis. Hvort sem það er vegna okkar skrifa eða ekki þá hefur reyndar komið fyrir undanfarin misseri að ferðaskrifstofur lækka verð á forfallaferðum sínum þegar skammt er í ferð en það er ennþá undantekning og ekki reglan.

Einhver kann að spyrja hvers vegna okkur þykir eðlilegt að Úrval Útsýn lækki verð á forfallasætum í ágæta skíðaferð þó nokkrir dagar séu til brottfarar.

Svarið er að ferðaskrifstofan er að selja þessi sæti á tvöföldu verði. Fólkið sem forfallaðist er búið að greiða að fullu og fær enga endurgreiðslu. Það eru þegar tæpar 800 þúsund krónur inni á reikningi Úrval Útsýn vegna þessara forfalla og þeir koma út i plús hvort sem þeim tekst að fylla þessi fjögur sæti eður ei.

Hvernig getum við fullyrt slíkt spyr kannski einhver? Svarið við því finnst í smáa letri ferðaskrifstofunnar. Þar segir:

Ferðir til og frá Barcelona / Lloret de Mar / Tossa de Mar / Costa Dorada / Salzburg fást ekki endurgreiddar þegar minna en 6 vikur eru í brottför.

Hér er um að ræða ferð til Salzburg. Ferðaskrifstofan er varla að auglýsa forfallasæti á allra síðustu stundu hafi fólkið sem hér forfallaðist afbókað fyrir rúmum sex vikum síðan. En dettur mönnum í hug að gefa afslátt? 800 þúsund kall er jú töluverður peningur fyrir meðalmanninn og þessi ferðaskrifstofa Pálma Haraldssonar mætti alveg við því að sýna lit á hörðum tímum.

En nei. Fullt verð gott fólk og hananú! Herra Haraldsson gefur ekkert.