Skip to main content
Tíðindi

Uppnám hjá Lufthansa

  06/09/2012No Comments

Eigir þú að fljúga með þýska flugfélaginu Lufthansa á föstudag er hætt við að þú verðir að gera aðrar ráðstafanir til að komast til og frá staða. Þriðja verkfall flugliða félagsins á vikutíma tekur þá gildi og hefur flugfélagið aflýst hundruðum ferða.

Þriðja verkfall flugliða Lufthansa á skömmum tíma hefst á föstudaginn kemur og setur allt úr skorðum hjá Lufthansa og farþegum þeirra

Tekur verkfallið nú til flugliða félagsins í Berlín, Frankfurt og Munchen en engin tilviljun er að þar eru þrjú helstu höfuðvígi Lufthansa í heimalandinu.

Flugliðarnir vilja fá fimm prósenta launahækkun til handa starfsfólki sem náð hefur fimmtán mánaða starfsaldri en sú krafa er þó ekki aðalatriðið. Fer helst fyrir brjóst flugliðanna að Lufthansa er farið að ráða fólk til starfa gegnum atvinnuleigur og það jafnvel erlendar. Þannig kemst flugfélagið hjá því að greiða lögbundin laun í Þýskalandi meðan atvinnuleigan þénar á tá og fingri fyrir að ráða fólk frá öðrum löndum á lágmarkslaunum sem gilda þar.

Er þetta sífellt stærra vandamál í flugheiminum að innlent fólk víkur fyrir ódýrara vinnuafli erlendis frá. Með því að beygja reglur á þennan hátt spara flugfélögin sér gríðarmikinn kostnað og reyndin hefur verið að þjónustustig versnar gagnvart farþegum hjá þeim er slíka leið hafa farið.