Séu einhverjar manngerðar byggingar á jörðinni sem sannarlega verðskulda titilinn Undur veraldar eru það svo sannarlega hinir miklu píramídar á Giza sléttunni í Egyptalandi.

Þó ekki sé nema fyrir þá sök að þeir eru enn standandi og líta að mestu leyti enn út eins og þeir gerðu þegar þeir voru byggðir fyrir 3.800 árum síðan. Því miður er þó farið að falla nokkuð úr þeim öllum og stór spurning hversu lengi hægt verður að leyfa þeim að grotna niður án endurbóta eða viðgerða.

Giza1
Loftmengun í Kaíró er svo mikil að hún byrgir oft sýn til píramídanna og það jafnvel úr nokkur hundruð metra fjarlægð

Alls eru sex píramídar á el Giza hásléttunni skammt utan Kairó. Sá stærsti þeirra, kallaður píramídi Khufu eða píramídi Keops, er jafnframt sá elsti og sá þeirra sem enn lítur best út. Aðeins hefur hvarflast úr honum og hann lækkað en þegar hann var byggður var hann 146,5 metra hár. Í dag er hann 138,8 metrar á hæð. Bygging píramída Khufu tók 20 ár og eru fornleifafræðingar vissir um að hann var byggður sem grafhýsi fyrir fjórða ættarveldi egypsku Faraóanna sem landinu réðu á þeim tímum.

Keops
Hæsta og voldugasta mannvirki í veröldinni í 3.800 ár var Khufu eða Keops píramídinn. Mynd Lyng883

Inni í Khufu-píramídanum eru þrjú stór rými. Neðst er rými sem hoggið var í berg það sem píramídinn stendur á en það rými var einhverra hluta vegna aldrei klárað. Rými mun ofar sem kennd eru við drottninguna og kónginn voru það hins vegar. Er Khufu píramídinn sá eini í Egyptalandi sem bæði hafði sérinngang og útgang. Hann er alfarið byggður úr kalksteini, þyngstu hnullungarnir vega 15 tonn og þeir minnstu 2,5 tonn. Hölluðu á sínum tíma allir veggir hans nákvæmlega 52 gráður.

Khufu
Uppgangurinn að rými konungs í Khufu píramídanum. Enn þann dag í dag þykir píramídinn magnað stórvirki frá sjónarhóli hönnunar og arkitektúrs. Mynd tatjana

Tveir inngangar eru í Khufu píramídann og báðir á norðurhlið hans. Annars vegar upprunalegur inngangur í 17 metra hæð og annar við jörðu þar sem óprúttnir hjuggu sér leið inn á sínum tíma. Er það sá inngangur sem nú er notaður af ferðafólki sem vill skoða píramídann að innan. Er þó takmarkað að sjá nema efsta rýmið þar sem steinkista konungs stendur í ferhyrntu herbergi sem merkilegt nokk var byggt úr graníti en ekki kalksteini. Ekki er granít að finna neins staðar nálægt píramídunum og styst í þúsund kílómetra fjarlægð. Tveir litlir gangar eru útfrá herbergi konungs sem leiða ekki neitt og eru skiptar skoðanir um tilgang þeirra. Hafa skal í huga að þeir sem vilja skoða verða að beygja sig niður nánast alla leiðina upp í konungsherbergið.

Endalausir þröngir gangar líða um Khufu píramídann og algjörlega einstök smíð sama hvernig á það er litið.
Endalausir þröngir gangar líða um Khufu píramídann og algjörlega einstök smíð sama hvernig á það er litið.

Morgunstund gefur gull í mund segir máltækið og það á hvergi betur við en hafi fólk áhuga að skoða Khufu píramídann að innan. Það eru nefninlega aðeins þrjú hundruð einstaklingar sem það geta dag hvern og þeir miðar fara í sölu um leið og miðasala opnar á morgnana og hluti þegar miðasala opnar að nýju klukkan 13 eftir hádegishlé. Í báðum tilvikum er það fyrstir koma fyrstir fá. Miði inn á svæðið auk aðgangs inn í píramídann plús aukagjald fyrir myndavél kostar 5.400 krónur. Ætli menn aðeins inn á svæðið greiðist aðeins 1.200 krónur. Opið er daglega milli 8 og 17 en til 15 þegar hin helga hátíð Ramadan stendur yfir.

Minni píramídarnir tveir heita Khafre píramídinn og Menkaure píramídinn. Þeir eru hvorki jafn tilþrifamiklir né eins merkilegir en á móti kemur að gjald fyrir að skoða þá að innan er lægra. Hafa skal í huga að píramídarnir þrír eru opnir til skiptis vilji fólk skoða þá að innan. Þrír enn smærri píramídar eru líka hér og tveir þeirra opnir til skoðunar án endurgjalds.