Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega sjö þúsund stakir notendur lesið sólarhringsgamla grein okkar um okurgræðgi Wow Air. Greinin sú heitasta á blogggáttinni þegar þetta er skrifað. En engum þessara sjö þúsunda líkar við greinina og enginn þarna úti telur þörf á að kommenta á samfélagsmiðlum.

Öllum finnst allt í lagi að „lággjaldaflugfélag“ heimti vel yfir hundrað þúsund krónur fyrir skitið flug án alls til og frá Tenerife???

Fyrir örfáum dögum birtist skeyti á fésbókinni þess efnis að x vara í Costco hefði hækkað um 35 prósent frá því sú verslun var opnuð síðastliðið vor. Sólarhring síðar töldu kommentin vel yfir hundrað talsins og rúmlega fjögur þúsund „læk“ á höfundinn fyrir að benda á þennan ósóma.

Við bentum á að tiltekin fargjöld „lággjaldaflugfélagsins“ Wow Air til Tenerife væru 144% dýrari en auglýst ódýrasta fargjald og túrinn til baka heim kostaði 338% meira en lægsta auglýsta verð hjá Wow Air. Í öllum tilfellum miðað við lægsta mögulega verð án þess að hafa handtösku né innritaðan farangur með í för.

Ekki nokkrum manni finnst það tilefni til „læks“ eða ummæla??? Það er ekki eins og Tenerife sé ekki vinsælasti áfangastaður þessarar þjóðar og hafi verið um áraraðir. Ólíkt vörunni sem allir fárast yfir að hafi hækkað í Costco.

Stephan G. Stephansson skrifaði eitt sinn: „undarleg er íslensk þjóð.“ Við hér tökum fullum hálsi undir það.