Við gerðum okkur að leik fyrir nokkru þegar tveir úr ritstjórn flugu til London að taka sitt hvoran leigubílinn inn í miðborg á sama hótelið frá flugvellinum. Ekki svo að skilja að fýla hafi verið manna millum heldur vildum við bera saman kostnað við að taka venjulegan leigubíl annars vegar og notast við þjónustu Uber hins vegar.

Ekki er langt síðan leigubílstjórar í London stöðvuðu umferð til að mótmæla þjónustu Uber. Mynd David Holt
Ekki er langt síðan leigubílstjórar í London stöðvuðu umferð til að mótmæla þjónustu Uber. Mynd David Holt

Leiðin lá frá Heathrow flugvelli að hóteli einu við Hyde Park sem er þokkalega miðsvæðis í borginni. Leiðin alls um 27 kílómetrar og sé umferð ekki í hámarki á túrinn ekki að taka mikið lengur en 40 til 45 mínútur almennt.

Skemmst er frá að segja að sá sem tók hinn hefðbundna leigubíl beint fyrir utan flugstöðina komst á leiðarenda með eina tösku meðferðis fyrir 56 pund. Sem gera 7.600 krónur rúmar miðað við gengi þess dags. Sú sem hins vegar notaði þjónustu Uber, sem nota bene er afar umdeild þjónusta í London sem annars staðar, komst á hótelið skömmu síðar og greiddi fyrir það 34 pund eða rétt rúmar fjögur þúsund og sex hundruð krónur.

Það er drjúgur verðmunur á nákvæmlega sama spotta og þó ekki skuli fullyrt hér að þetta sé raunin alltaf er sjálfsagt að hafa bak við eyra næst þegar ferðinni er heitið til bresku höfuðborgarinnar.