Það er engin lygi að einhver allra versta tilfinning á nokkru ferðalagi er að bíða við töskubeltið á áfangastað og sjá færibandið stöðvast án þess að taskan þín sé enn komin fram. Ekki er alveg óþekkt að fólk fái taugaáfall við slíkar aðstæður.

Þær skila sér langflestar að lokum.
Þær skila sér langflestar að lokum.

Það er sennilega huggun harmi gegn en reyndin er sú að flugfélögin hafa fimm sólarhringa til að koma töskunni þinni til skila. Enn meiri huggun er í því að í 99 prósent tilfella komast töskurnar til skila innan 24 stunda eftir að þær týnast. Það er tölfræðileg staðreynd.

Ritstjórn Fararheill hefur lent í þessu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og er með nokkur ráð til að forðast að slíkt eyðileggi byrjunina og jafnvel ferðalagið allt.

A) Gæta skal þess þegar pakkað er niður að hafa ekkert ómissandi í töskum sem fer í farangurrými vélarinnar. Þetta á við um ferðaskjöl, peninga, kort, lyf og annað það sem þú þarft á að halda ef til kastanna kemur.

B) Þó margir fíli vel að flíka sínu besta á erlendum ströndum eða borgum er það óráð ef töskur týnast. Geymið uppáhalds flíkurnar heima og takið það næstbesta eða ákveðið jafnvel að endurnýja fataskápinn úti og takið aðeins með eitthvað sem henda má. Þetta er dálítið mikilvægt því ekkert tryggingafélag lætur segja sér að fokdýr Armani jakkaföt eða Dior kjóll hafi verið í töskum fólks á leið til Kanaríeyja.

Lendi fólk í því að töskur skila sér ekki skal nálgast næsta þjónustuborð á viðkomandi flugvelli. Þar er skráð niður hvað skilaði sér ekki og einnig upplýsingar um hvar farþegar gista og hve lengi. Sé ekkert frámunalega merkilegt í töskunni eyðileggur það lítið þó töskur skili sér ekki strax því það er jú fríið sem er mikilvægast en ekki dótið í töskunni.

Munið að tölfræði sýnir að 99 prósent alls farangurs sem týnist skilar sér aftur innan þeirra tímamarka sem flugfélögin hafa til að koma henni til skila. Flugfélag er hins vegar skuldbundið til að greiða skaðabætur ef taskan finnst ekki innan fimm sólarhringa.