Ýmislegt forvitnilegt og fallegt ber fyrir augu þeirra sem þvælast um höfuðborg Finnlands þó Helsinki verði aldrei talin til fegurstu borga. En ein sú borg sem sannarlega fellur í flokk þeirra fegurstu á heimsvísu er aðeins í þriggja stunda fjarlægð frá þeirri finnsku.

Aðeins tekur þrjár stundir að skjótast til Pétursborgar frá Helsinki og öfugt með þessari fínu hraðlest. Mynd Rail Europe

Þar erum við auðvitað að tala um Pétursborg hina rússnesku eða Sánkti Pétursborg svo fullt nafn sé notað.

Að okkar mati aldeilis kjörið sé fólk á annað borð í Helsinki að þvælast að tvöfalda ánægjuna og taka inn Pétursborg líka. Það merkilega einfalt og fljótlegt svo lengi sem fólk skipuleggur sig með góðum fyrirvara.

Ekki svo að skilja að vandamál sé að kaupa miða í hraðlestina Allegro sem fer á milli borganna tveggja þrisvar til fjórum sinnum daglega. Vandamálið felst í því að vera með vegabréfsáritun til Rússlands. Þess er þörf og enginn stígur fæti inn í Pétursborg án slíkra pappíra. Allt um það hér hjá rússneska sendiráðinu en gróflega þarf að bóka gistingu í Pétursborg og framvísa þeirri bókun þegar sótt er um áritun. Vænlegt að sækja um með mánaðar fyrirvara að lágmarki því Rússarnir ekki frægir fyrir að flýta sér mikið í þessum efnum.

Vopnuð áritun verður heimsókn til Pétursborgar leikur einn frá Helsinki og annar stór plús við lestarferðina sá að vegabréfaeftirlitið fer fram um borð á leiðinni. Engin þörf á stoppi og bið við landamærastöð. Lestin sjálf fín og flott og ekki er landslagið á leiðinni neitt sérstaklega leiðinlegt heldur.

Miðaverð fram og aftur er töluvert dýrt þegar nær dregur eða kringum 10 þúsund fram og aftur á öðru farrými og allt að 20 þúsund á fyrsta farrými. Með því að bóka miða með mánaðar fyrirvara eða svo má lækka þessa upphæð um allt að helming. Finnska heimasíðan hér.