Seint fer smábærinn Stratford upon Avon í bækur íslenskra ferðalanga enda harla fátt sem gerir hann frábrugðinn öðrum bæjum í Englandi. Nema kannski að það var hér sem stórskáldið William Shakespeare fæddist og dó og það var í Stratford sem fyrsta skráða tilvikið um kvef komst á blað.

Afar ljúfur enskur smábær og Shakespeare til að monta sig af. Mynd brianac37
Afar ljúfur enskur smábær og Shakespeare til að monta sig af. Mynd brianac37

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem nú ferðast til Stratford í Avon koma til að berja hús skáldsins augum en rétt er að hafa í huga að ekki eru spekingar allir sammála að umrætt hús sé hið rétta  hús William Shakespeare.

Nú eru bæjaryfirvöld að gera skurk í heimsfrægð hans og hafa lokið endurbótum hins þúsund manna leikhúss sem hið víðfræga leikhús Shakespeare Theatre Company hefur gegnum árin notað til sýninga á verkum meistarans. Ekki síður skemmtilegt er að leikarar í þessum fræga félagsskap eiga það gjarnan til á fögrum dögum að rjúka út undir bert loft og fara með lofrullur og ræður beint upp úr verkum Shakespeare´s.

Annað sem gæti heillað bleiknefja frá Íslandi hér eru tveir æði fallegir miðaldakastalar, Kenilworth og Warwick, sem báðir eru að hluta opnir ferðafólki. Þá er talsvert líf í bænum sjálfum sökum þess að um markaðsbæ er að ræða og þar er óumdeilanlega fallegt þegar gróður er í mestum blóma á sumrin.

Og svo má ekki gleyma annarri merkilegri staðreynd um Stratford. Það var hér sem fyrsta skráða tilfelli kvefs var ritað í annála í heiminum. Sá sjúki hét John Commons og það er frá nafni hans sem kvef á ensku er kallað Common Cold.

Stratford er aðeins í 40 mínútna akstursfjarlægð frá Birmingham og er að mati Fararheill mikið ljúfari kostur en sú borg sé hugmyndin að slaka og njóta. Færri verslanir já en mun fallegri bær í öllu tilliti×