Ritstjórn Fararheill hefur ekki gert að venju sinni að mæla með hinum eða þessum veitingastöðum. Einfaldlega sökum þess að það jaðrar við kjánalegheit að alhæfa um slíka staði eða gefa þeim einkunnir.

Það er yndisleg hallarstemming yfir hlutunum á veitingastaðnum Shaka Zulu í London.
Það er yndisleg hallarstemming yfir hlutunum á veitingastaðnum Shaka Zulu í London.

Matur fer jú misjafnlega í fólk. Það sem einum finnst stórkostlegt leggur annar sér ekki til munns. Í þokkabót eru réttir á flestum stöðum fjölmargir og mismunandi starfsfólk að störfum hverju sinni. Og alvöru matsölustaðir eru ekki McDonalds þar sem þú færð alltaf nákvæmlega sama mat 365 daga á ári.

En jafnvel við getum stundum ekki orða bundist.

Við vorum nýverið á ferð um London og þar er gnótt góðra staða. Tveir sem okkur þóttu sérstaklega til koma eru Shaka Zulu í Camden og Elysee skammt frá Tottenham Court.

Sá fyrrnefndi er vægast sagt geðveikt flottur og nánast eins og að koma inn í höll að labba þar inn. Maturinn sjálfur byggist á uppskriftum frá Suður Afríku að langmestu leyti og allir fjórir í hópnum gáfu matnum toppeinkunn.

Ekki þurftum við að bóka fyrirfram á Shaka Zulu en það þurftum við að gera á Elysee sem sagður er fyrsti gríski veitingastaðurinn í London. Enginn íburður þar en þar taka þjónar hins vegar skyndilega upp á því að dansa gríska dansa og brjóta diska þegar líða fer á kvöldið. Gestir eru hvattir til að leika það eftir sem og við gerðum og allur salurinn hafði gaman af. Maturinn hundrað prósent frábær í öllum fjórum tilvikum.


View Tveir góðir veitingastaðir í London in a larger map