Þó nokkrir veitingastaðirnir á hinum vinsælu stöðum Las Americas, Los Cristianos og Costa Adeje á Tenerife fái ágæta einkunn heilt yfir eru þeir þó ívið fleiri sem eru lakir og lélegir eins og gengur á helstu ferðamannastöðum Spánar. En það þarf ekki að leita langt til að finna minnst tvo aldeilis frábæra.

Strandlífið heillar en stutt í fjalllendið og þar leynast ýmsir ágætir veitingastaðir í smábæjum. PIC bluechic
Strandlífið heillar en stutt í fjalllendið og þar leynast ýmsir ágætir veitingastaðir í smábæjum. PIC bluechic

Báðir eru þess konar staðir sem óhætt er að gera sér ferð til jafnvel þó til þess þurfi 20 mínútna bíltúr frá strandstöðunum. Þeir eru nefninlega báðir í smáþorpum aðeins upp í landi.

Sá fyrri er Meson Era Las Mozas í smábænum Valle de San Lorenzo (sjá kort). Þessi staður var lengi vel óþekktur nema meðal heimamanna en með sífellt fleiri ferðamönnum fjölgar alltaf þeim sem gera sér far um að finna slíkar perlur.

Meson Era Las Mozas er kjörstaður fyrir kjötætur og grilláhugafólk. Nautakjöt er nánast í öllum aðalréttum hér og það svo vel útilátið að fæstir ná að klára matinn. Allt er líka eldað með kanarístæl og allur matur úr héraði eins og það er kallað.

Þó hér sé enginn lúxus eða fínheit og kannski örlítill túristakeimur er stemmningin ljúf og góð og starfsfólkið fær toppeinkunn. Þá er heldur ekki neikvætt að staðurinn er í 200 ára gamalli byggingu. Bæði er hægt að fá borð inni eða á yfirbyggðri verönd. Þaðan af síður ætti að fara í taugarnar á fólki að verðlagning er hér hreinn brandari. Hægt að sleppa með þríréttað með karöflu af víni hússins fyrir um þrjú þúsund krónur.

Húsakynni seinni staðarins eru öllu lakari og ritstjórn veit um fólk sem hætti við eftir að hafa séð staðinn að utan. Sá heitir La Tasquita de Nino og er staðsettur í bænum San Miguel de Abona.

Hér er ýmislegt góðgæti í boði en allir réttir á matseðlinum eiga það sameiginlegt að vera eldaðir eftir gömlum uppskriftum heimamanna og allur matur hér líka út héraði.

Mælum sannarlega með stoppi svona ef strandlífið er orðið yfirþyrmandi. Þá er auðvelt að ná sér niður á þessum stöðum.