Hvernig hljómar þetta: fimm stjörnu hótel, sól og sandur, frír tími í heilsulind og afsláttur af heilsulindarkorti plús hálft fæði í byrjun desember? Allt þetta undir hundrað þúsund krónum á mann miðað við tvo.

Lanzarote er vel frábrugðin öðrum eyjum Kanarí en alls ekki síðri fyrir það. Mynd Lanzarotetourism
Lanzarote er vel frábrugðin öðrum eyjum Kanarí en alls ekki síðri fyrir það. Mynd Lanzarotetourism

Já, þetta er dálítið gott. Eða reyndar frábært sé þetta borið saman við þau ferðatilboð til Kanaríeyja sem nú eru uppi á vefum innlendra ferðaskrifstofa. Lægsta verð á ellefu nátta ferðapakka til Tenerife með ferðaskrifstofunni Vita þar sem gist er á þriggja stjörnu íbúðahóteli í stúdíóíbúð með engu kostar manninn tæpar 152 þúsund krónur eða rúmlega 300 þúsund alls.

Sama og þegið. Við kjósum heldur að njóta mun ljúfari desembersólar á Kanaríeyjum fyrir helmingi lægra verð þegar tekið er tillit til hálfs fæðis.

Það gerum við með því að bóka ferðatilboð hins norska Travelbird til Lanzarote. Fjölmargir pakkar þar í boði en lægsta verð finnst í byrjun desember og þá fæst umrædd fimm stjörnu ferð í fjórtán daga niður í rúmar 79 þúsund krónur á haus. Samtals tæplega 160 þúsund fyrir par eða hjón.

Þá vantar okkur aðeins að komast til Oslóar til að komast í pakkann og það gæti ekki verið einfaldara né ódýrara. Flugfélagið Norwegian er að fljúga töluvert á milli í byrjun desember og það á verði niður í 17 þúsund krónur báðar leiðir með eina tösku.

Þannig er greið leið til að njóta fimm stjörnu pakkans og hlaða kerfið fyrir komandi jólavertíð á Fróni undir hundrað þúsund krónum á kjaft.

Meira hér.