Hvert sinn sem við sjáum ferðabæklinga verður okkur hugsað til titillags teiknimyndarinnar Lego Movie en lagið vinsæla „Það er allt svo frábært“ var þar notað af hálfu illra afla til að halda mannskapnum í svaðinu.

Ljúf og góð svona yfirleitt en stöku götur verri en aðrar. Mynd William Murphy
Ljúf og góð svona yfirleitt en stöku götur verri en aðrar. Mynd William Murphy

Það er líka allt frábært í Dublin að því er fram kemur á vef Wow Air sem hefur um hríð boðið beint flug til írsku höfuðborgarinnar.

„Dublin er dásamlegur áfangastaður og ekki laust við að maður brosi út í annað við það eitt að hugsa um þessa heillandi höfuðborg Írlands. Andrúmsloftið er hreint út sagt kynngimagnað í þessari ört vaxandi heimsborg þar sem fortíð mætir nútíð á hverju götuhorni“

Allt í þessu fína virðist vera nema svo er þó ekki. Samkvæmt tölum Ferðamálaráðs Írlands 2014 kemur fram að tæplega 800 ferðamenn voru fórnarlömb þjófa á götum Dublin það árið. Í ofanálag við þann fjölda urðu átta ferðamenn fyrir alvarlegum vopnuðum árásum á síðasta ári. Hér er aðeins um þá að ræða sem tilkynntu tjón sitt sem vitað er að margir gera almennt ekki. Það er því sennilega hægt að tvöfalda fjöldann án þess að fara út í öfgar.

Vissulega ekki stór fjöldi fólks og alls ekki sé tillit tekið til að um fjórar milljónir ferðafólks heimsóttu Dublin það árið. Það er nánast ekkert til að tala um. Nema náttúrulega fyrir þá sem fyrir verða. Þeir brosa seint út í annað yfir borginni.

Það merkilega er þó að það er sennilega hægt að tryggja sig eins og hægt er gegn slíkum leiðindum með því að annaðhvort sleppa eða fara mjög varlega um tvær götur sérstaklega. Það sýnir sig nefninlega að 86 prósent allra tilkynntra þjófnaða og árása áttu sér stað í litlum radíus frá þessum tveimur götum. Þær eru hin langa Pearse Street og Store Street (sjá kort).

Meirihluti þjófnaða átti sér stað milli klukkan 14 og 18 og rúmlega 60 prósent fórnarlamba þjófnaða voru stúlkur á aldrinum 17 til 25 ára.

Vonandi hjálpar þessi tölfræði að gera ferðina til Dublin jafn yndislega og Wow Air vill vera láta. Óvitlaust er kannski líka að kynna sér vegvísi Fararheill um Dublin og auðvitað býður enginn lægra verð á gistingu þar í borg en við 🙂