Gleymd og grafin um þúsundir ára en það tók aðeins nítíu ár fyrir nútíma túrisma að ganga svo nærri grafhýsi hins forna faraó Tútankamon að því þarf að loka.

Grafhýsi kappans í Dal konunganna í Egyptalandi hefur látið svo mikið á sjá, að hluta til vegna hita og raka, en fyrst og fremst vegna átroðnings ferðamanna að gullfallegar og stórmerkilegar skreytingar og skrift á veggjum eru farin að falla af og skemmast.

Gröf Tútankamons, sem er sennilega þekktastur allra egyptskra faraó sökum mikillar gullgrímu sem hann hafði á sér í gröfinni, er vinsælasta aðdráttaraflið í Dal konunganna í Egyptalandi og hefur verið það meira og minna frá því að grafhýsið fannst árið 1922.

Nú hafa yfirvöld í Egyptalandi takmarkað verulega aðgengi fólks frá því sem áður var og í þeirri von að geta lokað alveg fyrir aðgang hefur verið sett upp nákvæm eftirlíking af grafhýsinu á safni í Kaíró.

Svo virðist sem opnunin fyrr í vetur hafi tekist afar vel enda þykir eftirlíkingin stórkostlega úr garði gerð og ekki hlaupið að því að segja til um hvort grafhýsið er hið raunverulega af myndum af dæma.

Hvenær eða hvort stjórnvöld loka hinu raunverulega grafhýsi á eftir að koma í ljós en það verður fyrr en síðar ef fram heldur sem horfir.